Erlent

Tuttugu og fimm enn saknað

Frá athöfninni í dómkirkjunni í morgun
Frá athöfninni í dómkirkjunni í morgun Mynd/AFP
Tuttugu og fimm er enn saknað eftir fjöldamorðin þar sem nítíu og þrír féllu í Noregi á föstudag. Nítíu og sex manns eru særðir, þar af margir alvarlega.

Enn einn hefur bæst í hóp fallinna því norska ríkissjónvarpið greindi frá því í morgun að einn þeirra sem varð fyrir árásunum hefði dáið á sjúkrahúsi í morgun. Heildarmynd hryllingsins er ekki enn að fullu komin í ljós. Fyrir utan þá níutíu og þrjá sem nú er staðfest að hafi fallið, eru níutíu og sex særðir þar af margir mjög alvarlega. Sextíu og sjö eru sárir eftir skotárásina í Útey og þrjátíu eftir sprengjutilræðið í stjórnarráðshverfinu í Osló, en ekki hefur verið greint frá því í hvoru tilvikinu maðurinn sem lést í morgun særðist.

Listinn yfir þá sem saknað er er átakanlegur. Fjórir einstaklingar eru nafngreindir og eru þeir á aldrinum 18 til 20 ára, en að auki er listi yfir tuttugu og einn sem ekki eru nefndir með nafni. Samtals er því 25 manna saknað eftir voðaverkin. Margir þeirra sem voru á Útey þegar skotárásin var gerð þar lögðust bæði særðir og ósærðir  til sunds í ísköldum sjónum við Útey og ljóst að margir þeirra lifðu það sund ekki af.

Þegar Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs minntist þeirra sem féllu í minningarguðsþjónustu í dómkirkjunni í Osló í morgun og nefndi þar nokkra nána vini sína með nafni, mátti heyra kirkjugesti bresta í grát.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×