Innlent

Tvær níu ára stúlkur fundu Lóu

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Lóa var köld og skítug þegar hún fannst í dag, enda búin að vera ein á vappi frá því á laugardag.
Lóa var köld og skítug þegar hún fannst í dag, enda búin að vera ein á vappi frá því á laugardag.
„Það er mikil gleði á heimilinu þessa stundina,“ segir Sigurbjörg Vignisdóttir, eigandi Chihuahua-hundsins Lóu, sem fældist burt frá fólki sínu um síðustu helgi.

Lóa er nú komin til eiganda síns en tvær níu ára stúlkur, þær Alma og Katrín, komu auga á hana á leið sinni heim úr skólanum í dag.

„Ég fékk símtal um klukkan hálf þrjú í dag frá föður annarrar stúlkunnar og hann segir við mig að dóttir sín telji að hún hafi fundið hundinn minn. Svo segir hann að stúlkurnar séu á Tómasarhaga en ég var einmitt stödd þar líka,“ segir Sigurborg. Hún segir stúlkurnar hafa brugðist hárrétt við aðstæðum. „Þær komu auga á hana og náðu að króa hana af. Þær höfðu hana þannig alveg þangað til ég kom.“

Sigurborg segir að Lóa hafi verið köld og skítug þegar hún fannst. „Hún var heldur skelkuð svona fyrst um sinn en þegar hún áttaði sig á því hver ég var fékk ég trilljón kossa. Þá var eins og ekkert hefði í skorist.“

Fjölmargir hafa leitað hundsins síðustu daga og í gær ákvað ung kona að verðlauna þeim sem næði að koma Lóu til síns heima tvo miða á landsleikinn mikilvæga á föstudaginn. Það verða því tvær níu ára hetjur sem fá að skella sér á landsleikinn. „Við ætlum auðvitað að færa þeim fundarlaun líka í samráði við foreldrana. Við þurfum að komast að því hvað þær langar í,“ segir Sigurborg að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×