Innlent

Tveir af átján reiðhjólamönnum notuðu reiðhjólarein

Mynd úr safni
Átján reiðhjólamenn áttu leið um Suðurgötu í Reykjavík á meðan á hraðaeftirliti lögreglu stóð. Athygli lögreglu vakti að aðeins tveir þeirra notuðu reiðhjólareinina, hinir hjóluðu ýmist á þeim hluta götunnar sem er ætluð bílaumferð eða á gangstéttinni vestanmegin við akbrautina.

Lögreglan var hins vegar á Suðurgötunni að fylgjast með hraða bifreiða og voru 107 brot mynduð þar síðdegis í gær.

Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Suðurgötu í suðurátt, að Kirkjugarðsstíg, en þarna er einstefna. Á einni klukkustund, síðdegis, fóru 188 ökutæki þessa akstursleið og því ók meirihluti ökumanna, eða 57%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 45 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði. Tólf óku á 50 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 58. Eftirlit lögreglunnar á Suðurgötu var tilkomið vegna ábendinga um hraðakstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×