Viðskipti innlent

Tveir handteknir vegna gruns um fjárdrátt hjá Sparisjóði Siglufjarðar

Nanna Elísa Jakobsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Frá Siglufirði.
Frá Siglufirði. vísir/gísli berg
Tveir voru handteknir á Siglufirði í gær í aðgerðum sérstaks saksóknara vegna gruns um fjárdrátt hjá Sparisjóði Siglufjarðar. Annar hinna handteknu er fyrrverandi starfsmaður sparisjóðsins.

Samkvæmt heimildum Vísis fóru átta menn frá sérstökum saksóknara norður vegna málsins. Sparisjóðurinn var lokaður í gærmorgun vegna aðgerða lögreglu og opnaði ekki fyrr en klukkan 11. Þá voru framkvæmdar húsleitir.

Ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim handteknu eftir því sem Vísir kemst næst og komu starfsmenn sérstaks saksóknara suður í dag.

Jóel Kristjánsson, sem var ráðinn tímabundið sem sparisjóðsstjóri AFLs í sumar þangað til samrunaferli við Arion banka er lokið, segist ekki geta tjáð sig um málið að svo stöddu. Von er á yfirlýsingu frá sparisjóðnum vegna málsins.

Aðgerðir lögreglu höfðu ekki teljanleg áhrif á starfsemi sparisjóðsins og var opið samkvæmt opnunartíma í dag. Um þrjátíu starfsmenn starfa hjá Sparisjóðnum á Siglufirði en hlúð var að starfsfólki í dag samkvæmt heimildum Vísis.

Uppfært klukkan 18:40

AFLs Sparisjóður hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins í kjölfar fréttar Vísis. Yfirlýsinguna má sjá hér að neðan. Þá kom fram í fyrstu útgáfu fréttarinnar annar handteknu væri starfsmaður sparisjóðsins. Hann lét hins vegar af störfum fyrr á árinu.

Yfirlýsing AFLs Sparisjóðs:

Vegna umfjöllunar um ætlaðan fjárdrátt fyrrverandi starfsmanns hjá AFL Sparisjóð Siglufirði þá vilja stjórnendur sparisjóðsins koma eftirfarandi á framfæri.

Eftir fyrirspurn frá Sérstökum saksóknara, í alls óskyldu máli, kom upp rökstuddur grunur um fjárdrátt fyrrum skrifstofustjóra AFL sparisjóðs og í framhaldi af því var málið kært til Sérstaks saksóknara.

Stjórnendur hjá AFL Sparisjóð munu ekki tjá sig frekar um málið meðan rannsókn stendur yfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×