Erlent

Um 100 hvalir innilokaðir af hafís í Beringshafi

Hafís hefur lokað um 100 hvali af í Beringshafi og þeirra bíður ekkert annað en hungurdauðinn nema ísbrjótur fáist til að brjóta þeim leið út úr prísundinni.

Um er að ræða mjaldra eða hvíthvali sem eru hvítir á lit og geta orðið allt að sex metra langir og tvo tonn að þyngd. Mjaldrarnir eru lokaðir inni í hafísnum um 15 kílómetra undan ströndinni í Beringshafi við bæinn Janrakynot í austurhluta Rússlands.

Ísinn þrengir stöðugt að þeim og fæðuskortur er orðinn alvarlegt vandamál fyrir mjaldrana. Yfirvöld í Tjukotka-héraðinu sem hafsvæðið tilheyrir hafa fjallað um málið á heimasíðu sinni og þar kemur fram að þau hafi sent beiðni til yfirvalda í Moskvu um að ísbrjótur komi mjöldrunum til aðstoðar en rússneskur ísbrjótur er til staðar í Beringshafi og það tæki hann tvo daga að sigla til mjaldranna.

Mjaldrar eru friðaðir í Rússlandi og raunar í miklu uppáhaldi hjá Vladimir Putin, forsætisráðherra landsins. Hann er með sérstaka umfjöllun um þá á heimasíðu sinni. Því gera yfirvöld í Tjukotka sér góðar vonir um að ísbrjóturinn komi fljótt til að bjarga mjöldrunum frá hungurdauða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×