Innlent

Um 20 byssum stolið á ári

Hjörtur Hjartarson skrifar
Snorri Guðjónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu
Yfir hundrað skotvopnum hefur verið stolið undanfarin fimm ár. Frágangi á byssum er oft á tíðum ábótavant sem gerir innbrotsþjófum auðvelt fyrir. Ekki er farið fram á að eigendur skotvopna geymi byssur sínar í sérstökum, læstum skáp nema við kaup á fjórðu byssunni.

Reglugerðin fyrir útgáfu skotvopnaleyfis á Íslandi er áþekk því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Ströng skilyrði eru sett áður en slík leyfi eru gefin. Ákveðinn aldur, andlegt heilbrigði, vottað af lækni og hreint sakavottorð.

„Ég held nú að það sé ansi margt hjá okkur til hreinnar fyrirmyndar. Við stöndum ekki að baki því sem við þekkjum í kringum okkur. Til dæmis hvað varðar skráningu skotvopna,“ segir Snorri Guðjónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra var heildarfjöldi skotvopna hérlendis, 59.400. Rétt tæplega 19 þúsund manns höfðu skotvopnaleyfi. Í landsskrá skotvopna berast einnig tilkynningar um þjófnað á skotvopnum.

Frá 2008 hefur um 20 skotvopnum verið stolið á ári, eða 107 alls. Ljóst má því vera að fjölmörg skotvopn eru í höndum óprúttinna aðila, mun fleiri en þessi 107.

„Auðvitað hefur maður áhyggjur að svo sé,“ segir Snorri.

Sigurður Ragnar Haraldsson, verslunarmaður hjá skotveiðiversluninni Hlað
Í lögum um meðferð skotvopna segir að ekki þurfi að geyma byssur í sérstökum byssuskáp fyrr en við fjórðu byssu. Reyndar liggur fyrir frumvarp hjá Alþingi sem kveður á um að sérstakan skotvopnakáp þurfi við kaup á fyrstu byssu.

Í skotvopnalögum segir engu að síður að byssur og skotfæri skulu geymdar í aðskildum læstum hirslum. Eins og gefur að skilja hefur lögreglan ekki mannafla til að fylgja því eftir að allir standi við það. Reyndar er það bara svo að lögreglan heimsækir bara þá sem þurfa að vera með sérstakan byssuskáp, einu sinni.

Menn geta vissulega keypt viðurkennda byssuskápa fyrir eina til þrjár byssur en lítið er hinsvegar um það.

„Nei, það er svona mín tilfinning að flestir sem eru að kaupa sér viðurkenndan skáp geri það við fjórðu byssu, eins og lög gera ráð fyrir,“ segir Sigurður Ragnar Haraldsson hjá skotveiðiversluninni Hlað.

Sigurður segir að hann margir geymi byssur sínar í skápum með lás sem nokkuð auðvelt er að brjóta upp. Sumir í ólæstum fataskáp og þá mun geymsla á skotvopnum undir hjónarúminu vera nokkuð vinsæl.

„Já, ég held að það séu alveg pottþétt dæmi um að fólk geymi byssur sínar undir rúmum og inni í fataskápum.“

Almennt má þó segja að eigendur skotvopna á Íslandi séu ábyrgir og gangi vel frá byssum sínum þegar þær eru ekki í notkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×