Skoðun

Um mikilvægi hjóna- og fjölskyldumeðferðar

Þorleifur Kr. Níelsson skrifar
Þessi grein er skrifuð með það að markmiði að vekja almenning og stjórnvöld til umhugsunar um mikilvægi hjóna- og fjölskyldumeðferðar. Í gegnum tíðina hefur þessi fagþjónusta ýmist verið kennd við ráðgjöf eða meðferð. Eins og nafnið gefur til kynna þá snýst hjóna- og fjölskyldumeðferð um að fólk leitar til meðferðaraðila til að ráða bót á sínum vandamálum sem tengjast parsambandi eða fjölskyldutengslum.

Mismunandi þekking

Á Íslandi hefur fagfólk sem veitir hjóna- og fjölskyldumeðferð mismunandi faglega þekkingu og reynslu. Það stafar af því að nám í fjölskyldumeðferð er oftast þverfaglegt framhaldsnám. Einnig hefur það áhrif að þeir sem veita hjóna- og fjölskyldumeðferð hafa ekki löggilt starfsheiti eins og til dæmis sálfræðingar og félagsráðgjafar. Þetta leiðir af sér að fagfólk á þessu sviði titlar sig margs konar starfsheitum. Dæmi um starfsheiti þeirra sem veita hjóna- og fjölskyldumeðferð eru fjölskyldufræðingur, fjölskyldumeðferðarfræðingur, fjölskylduþerapisti, hjónabandsráðgjafi og fjölskylduráðgjafi. Þess má geta að síðan 2009 hefur hérlendis verið í boði nám á meistarastigi í fjölskyldumeðferð. Tilkoma þessa náms hefur nú þegar haft jákvæð áhrif og aukið faglega þekkingu á sviði hjóna- og fjölskyldumeðferðar á Íslandi. Það er góð regla þegar pantaður er tími í hjóna- eða fjölskyldumeðferð að spyrja viðkomandi fagmann hvaða menntun hann hefur.

Hluti af opinberri þjónustu

Þjónusta sjálfstætt starfandi fagfólks, eins og til dæmis sálfræðinga, félagsráðgjafa og fjölskylduráðgjafa, er ekki niðurgreidd af sjúkratryggingum Íslands eins og sum önnur heilbrigðisþjónusta. Það er umhugsunarvert að þjónustu sem beinist að sálarlífi fólks, fjölskyldutengslum og hjóna- eða parsambandi sé ekki gert jafn hátt undir höfði í íslenska heilbrigðiskerfinu og annarri heilbrigðisþjónustu. Þó er hægt að benda á að flest stéttarfélög styrkja sína félagsmenn sem kjósa að fara í hjóna- eða fjölskyldumeðferð. Þessi þjónusta er sums staðar veitt í sérhæfðum meðferðarúrræðum innan heilbrigðiskerfisins, barnaverndar- og félagsþjónustu sveitarfélaga. Hið opinbera getur hér gert betur með því að auka vægi hjóna- og fjölskyldumeðferðar frá því sem nú er. Nýleg umræða um mikla bið eftir geðheilbrigðisþjónustu kemur hér við sögu. Ef hjóna- og fjölskyldumeðferð yrði gert hærra undir höfði þá myndi það líklega leiða til þess að bið og álag á geðheilbrigðisþjónustu landsins myndi minnka.

Ekkert tiltökumál

Víða úti í hinum stóra heimi þykir það ekkert tiltökumál að fara í meðferð við hinum ýmsu vandamálum sem tengjast hjónabandi eða fjölskyldutengslum. Á Íslandi er það enn þá þannig að mörgum finnst það vera þung spor að stíga að panta sér tíma í viðtalsmeðferð og finnst sumum það jafnvel vera skammarlegt að einhverju leyti. Þetta þarf ekki að vera svona. Með aukinni umræðu um mikilvægi þess að fólk leiti sér hjálpar þegar eitthvað bjátar á er hægt að eyða fordómum. Þeir sem fara í hjóna- eða fjölskyldumeðferð eiga að vera stoltir af því að hafa stigið það skref að leita faglegrar aðstoðar fyrir sig og sína, það er oft ansi mikið í húfi þegar fjölskyldan er annars vegar.

Hefur þú eða maki þinn einhvern tímann hugleitt það að leita aðstoðar hjá fagfólki vegna sambúðarerfiðleika? Er kynlífið í lagi? Er unglingurinn þinn að gera þig gráhærða/an fyrir aldur fram? Þekkir þú einhvern sem hefur ekki talað við nákominn fjölskyldumeðlim í langan tíma? Finnst þér þú ekki fá nógu mikinn stuðning frá þeim sem næst þér standa? Líður þér stundum illa án þess að gera þér fyllilega grein fyrir því hvað veldur vanlíðaninni? Þetta eru aðeins örfáar spurningar til að fá þá sem þessa grein lesa til að hugsa um hvort þeir hafi einhvern tíma haft þörf fyrir hjóna- eða fjölskyldumeðferð. Algengur misskilningur er að fjölskyldumeðferð gangi út á að öll fjölskyldan fari í viðtalsmeðferð en það þarf ekki endilega að vera svo. Stundum er nóg fyrir suma fjölskyldumeðlimi að koma í einn viðtalstíma á meðan aðrir í fjölskyldunni þurfa að koma oftar til að vinna í sínum málum.

Lokaorð

Þessi grein er langt því frá að vera tæmandi umfjöllun um hjóna- og fjölskyldumeðferð. Vonandi fær hún stjórnvöld til að hugleiða þann kost að niðurgreiða þjónustu þeirra fagaðila sem veita hjóna- og fjölskyldumeðferð. Einnig er tilgangurinn með þessari grein að fá þig, lesandi góður, til að staldra við og hugleiða hvort þú eða einhver þér nákominn gæti haft þörf fyrir þessa fagþjónustu. Ef svo er þá er þessi grein ekki síst hvatning til þín um að gera eitthvað í málunum áður en það verður of seint. Það að tala við óháðan meðferðaraðila um sín mál getur haft jákvæð áhrif og kannski orðið til þess að þú, kæri lesandi, sjáir fleiri möguleika í stöðunni en þú sérð núna.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×