Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Breiðablik - ÍBV 1-1 | Bæði lið enn án sigurs

Ari Erlingsson á Kópavogsvelli skrifar
Jonathan Glenn skoraði jöfnunarmark ÍBV.
Jonathan Glenn skoraði jöfnunarmark ÍBV. Vísir/stefán
Það hefði ekki átt að koma mörgum á óvart að lið Breiðablik og ÍBV gerðu jafntefli á Kópavogsvelli í dag. Hvorugt lið hafði unnið leik það sem af er sumars og  hafa öll stig liðanna komið úr jafnteflisleikjum. Niðurstaðan 1-1, úrslit sem eflaust bæði lið sætta sig við miðað við gang leiksins þótt bæði lið þurfi nauðsynlega á sigri að halda.

Blikarnir vour betri aðilinn í fyrri hálfleik og sundurspiluðu oft á tíðum gestina frá Eyjum. Árni Vilhjálmsson og Elvar Páll sköpuðu oft á tíðum mikinn usla í vörn ÍBV. Það kom því fáum að óvart að Árni skyldi skora fyrsta mark leiksins með snyrtilegu marki á 8. mínútu.

Árni fékk þá skoppandi bolta inn í teig, aðþrengdur varnarmönnum náði hann frábæru skoti beint upp í þaknetið. Þrátt fyrir yfirburði Blika í fyrri hálfleik voru það Eyjamenn sem áttu besta færið.

Jonathan Glenn hinn eldfljóti framherji frá Trinidad fór þá illa að ráði sínu. Glenn slapp einn innfyrir en skot hans fór yfir mark Blika. Besta færi Blika fékk Guðjón Pétur Lýðsson þegar hann skaut í stöng úr aukaspyrnu.

Seinni hálfleikur var frábrugðinn þeim fyrri að því leytinu til að hann var talsvert daufari. Eyjamenn voru þó aðeins betri en í fyrri hálfleik. Gestirnir spiluðu einfaldan fótbolta. Þeir reyndu að stinga boltanum inn fyrir á Glenn sem reyndar oft á tíðum skorti boltatækni og útsjónarsemi til að koma sér í almennileg færi en eljusemin, hraðinn og ákefðin kemur honum langt.

Það var einmitt hraðinn hjá Trinidadbúanum sem skilaði marki á 81. mínútu. Brynjar Gauti átti þá langa spyrnu fram. Miðverðir Blika létu boltann skoppa í stað þess að hreinsa í burtu. Glenn sleppur í gegnum vörn Blika og skallar boltann yfir Gunnleif sem hikar í úthlaupinu. Virkilega klaufalegir tilburðir hjá varnarmönnum og markmanni Breiðabliks.

Bæði lið reyndu að kreista fram 3 stig en allt kom fyrir ekki. 1-1 jafntefli niðurstaða leiksins.

Blikar eru líklegast súrir yfir því að klára ekki leikinn í fyrri hálfleik. Þeir virtust hafa tögl og haldir en einhvern auka slagkraft vantaði til þess að ganga endanlega frá leiknum. Varnarlína Blika leit ekki vel út í jöfnunarmarki Eyjamanna og oft á tíðum voru þeir í vandræðum með áðurnefndan Glenn.

Það voru helst Elvar Páll, Árni og Tómas sem ógnuðu fram á við þótt töluvert hafi dregið af þeim í síðari hálfleik. Eyjamenn geta verið sáttir 1 stig og virðist vera stígandi í þeirra leik. Glenn var þeirra besti maður, þótt hann sé alls ekki besti knattspyrnumaðurinn inn á vellinum þá var barátta hans til fyrirmyndar og oft á tíðum getur það skilað mönnum langt en það þurfa fleiri að leggja í púkkið hjá Eyjamönnum þegar kemur að sóknarleiknum.

Til dæmis er áberandi hversu lítið Víðir nær að koma sér inn í spil Eyjamann. Víðir var besti maður liðsins á síðustu leiktíð og það má því í raun segja að liðið eigi hann inni. Seinni hálfleikur var miklu mun betri hjá þeim hvítklæddu og virtist vera sem hin margrómaða Eyjabarátta kæmi í seinni hálfleik.

Sigurður Ragnar: Við erum taplausir í 4 leikjum.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari Eyjamanna var ágætlega sáttur með 1 stig úr leiknum. "Ég er þokkalega ánægður með 1 stig. Vissulega svekkjandi að lenda undir sérstaklega eftir að hafa klúðrað dauðafæri í fyrri hálfleik, sem betur fer sýndum við karakter og náðum að jafna í seinni hálfleik.

Við spiluðum fínan fótbolta og bjuggum okkur til góð færi þegar leið á leikinn en það vantaði smá upp á til þess að landa þremur stigum. 1 stig á útivelli er alltaf fínt í þessari deild. Við erum á réttri leið. Núna erum við taplausir í síðustu 4 leikjum og erum orðnir traustari varnarlega. Það er bara þannig að ÍBV er oft lengur í gang en önnur lið, útlendingarnir komu seint og þetta er að slípast saman hjá okkur".

Aðspurður um frammistöðu Jonathan Glenn hafði Sigurður þetta að segja: "Hann er að sýna það að hann er þrælsterkur leikmaður. Líkamlega er hann frábær. Sterkur og snöggur og við sáum það þegar hann tók menn á sprettinum hvað hann býr yfir miklum hraða. Til að toppa hans leik þá fórnaði hann sér algjörlega í þetta mark hann setti andlitið í boltann, skoraði og fór útaf með blóðnasir".

Undanfarna daga hafa fjölmiðlar fjallað um leikmannamál ÍBV sem og stöðu Sigurðar innan félagsins. Sigurður hafði þetta að segja um stöðu leikmannamála.

"Auðvitað hefði ég viljað fá meira fjármagn til leikmannakaupa en svona er bara staðan hjá félaginu, samt sem áður vonast ég til þess að ná að styrkja okkur eitthvað í næsta leikmannaglugga. Jú vissulega bjóst ég við að fá meira fjármagn en það þýðir lítið að velta sér upp úr því í dag."

Guðmundur Benediktsson: Við erum að hleypa inn skítamörkum

"Ég er svekktur. Við fengum svo sannarlega tækifæri til að klára þennan leik í stöðunni 1-0. Annað eða þriðja markið hefði klárað þetta en það var eins og það vantaði einhverja trú. Það hefur auðvitað einhver áhrif á liðið að ná ekki þessum langþráða sigri en það jákvæða er kannski að við erum ekki að tapa leikjum en samt sem áður þurfum við að fara að vinna leiki og við eigum bara að vinna okkar heimaleiki.

Við erum að hleypa inn skítamörkum. Þetta mark hjá Eyjamönnum kom mér í opna skjöldu. Við leyfðum þessum langa bolta að skoppa fyrir framan vörnina og það er bara ekki í boði hjá meistaraflokki, það þarf bara að hreinsa svona boltum í burtu," sagði Guðmundur..






Fleiri fréttir

Sjá meira


×