Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Keflavík - Fram 5-0

Benedikt Grétarsson á Nettóvellinum skrifar
Framarar gátu ekkert í dag.
Framarar gátu ekkert í dag.
Keflvíkingar unnu 5-0 stórsigur á þunnskipuðu liði Fram en gestirnir misstu tvo leikmenn af velli með rautt spjald.

Sigurbergur Elísson skoraði tvö mörk fyrir Keflavík og þeir Magnús Sverrir Þorsteinsson, Hörður Sveinsson og Jóhann Ragnar Benediktsson eitt hvor. Keflvíkingar slitu sig endanlega frá botnbaráttunni með þessum sigri en Framarar eru enn í bullandi fallbaráttu.

Fyrri hálfleikur fór rólega af stað í kuldarokinu í Keflavík. Gestirnir héldu boltanum ágætlega innan liðsins en gekk bölvanlega að skapa sér færi. Heimamenn börðust vel að vanda og komust yfir á 18.mínútu með fallegu marki Sigurbergs Elíssonar eftir frábæran undirbúning Guðmundar Steinarssonar.

Framarar urðu fyrir áfalli á 36.mínútu þegar Alan Lowing fékk beint rautt spjald fyrir að fella Frans Elvarsson en náðu engu að síður að halda leiknum í þokkalegu jafnvægi til hálfleiks.

Síðari hálfleikur fór ágætlega af stað fyrir gestina, sem létu heimamenn hafa vel fyrir sér. Hrikaleg varnarvinna Framara færði Sigurbergi sitt annað mark á 62.mínútu og á 68.mínútu fengu Framarar svo tvö rothögg.

Fyrst skoraði Magnús Sverrir Þorsteinsson frekar skondið mark og í kjölfarið var Jóni Gunnari Eysteinssyni vikið af leikvelli fyrir munnsöfnuð við Gunnar Jarl dómara. Eftir þetta var aðeins spurning hversu stór sigur Keflvíkinga yrði og Hörður Sveinsson og Jóhann Ragnar Benediktsson bættu við einu marki hvor.

Niðurstaðan 5-0 stórsigur heimamanna og þeir geta farið að líta upp töfluna í næstu leikjum. Fram er áfram í fallbaráttu og verða að girða sig í brók ef ekki á illa að fara.

Sigurbergur: Er í mínu besta formi

Sigurbergur Elísson skoraði tvö mörk og var að vonum sáttur eftir leikinn.

„Það er rosalega gott að vera komnir úr þessu basli og þetta var góður sigur hjá okkur í dag. Við förum í alla leiki til að sigra og nú er bara að klára mótið á góðu nótunum.“ Sigurbergur átti virkilega góðan leik og segist vera í toppformi.

„Ég er búinn að vera svo rosalega mikið frá vegna meiðsla, nánast í tvö og hálft ár en núna er ég í mínu besta formi og nýt þess að spila með þessum guttum í Keflavík. Það hjálpar líka mikið að hafa nokkra reynslubolta í liðinu.“

Zoran: Kunnum ekkert að spila einum fleiri

Þjálfari Keflavíkur, Zoran Daníel Ljubicic brosti breitt eftir leikinn.

„Við vissum að þetta yrði erfitt og þeir voru kannski meira með boltann framan af leiknum en svo skorum við gott mark og þá varð þetta auðveldara.“

Keflvíkingar þekkja það mæta vel að spila færri en hafa sjaldnar verið í þeirri stöðu að vera með fleiri leikmenn á vellinum en andstæðingurinn.

„Við vissum á tímabili ekkert hvað við áttum að gera, við erum miklu vanari því að vera manni færri.“ sagði Zoran með bros á vör.

Þorvaldur: Afmælisboðin að trufla?

Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, var ekki sáttur eftir leikinn.

„Mér fannst við vera betra liðið í stöðunni 1-0 og manni færri en við fengum ekkert gefins frá dómaranum í 50/50 atriðum og þannig lagað séð féll allt með Keflvíkingum. Kannski er allt þetta tal um afmælisboð leikmanna Keflavíkur eitthvað að trufla dómarana.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×