Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan - Keflavík 1-3

Kristinn Páll Teitsson á Samsung-vellinum skrifar
Mynd/Ernir
Keflvíkingar unnu flottan 3-1 sigur á Stjörnunni í 15. umferð Pepsi deild karla í kvöld. Með þessu lyfta þeir sér upp í fimmta sæti, aðeins stigi á eftir Stjörnunni.

Stjörnumenn eygðu góðan möguleika á að saxa forskot KR eftir tap þeirra í Eyjum á meðan Keflvíkingar sigldu um lygnan sjó í miðri deildinni fyrir leikinn.

Keflvíkingar komu mun grimmari inn í leikinn og undan vindi reyndu þeir að nýta sér aðstæðurnar. Guðmundur Steinarsson skoraði eitt af mörkum tímabilsins þegar hann skoraði með gríðarlega fallegu bogaskoti lengst utan af velli yfir Ingvar í marki Stjörnunnar.

Stjörnumenn virtust þó vakna við þetta mark og náðu betri tökum á aðstæðum og fóru að sækja. Það var úr góðri sókn sem jöfnunarmarkið kom úr, þá átti Garðar Jóhannsson skot eftir sendingu Halldórs Orra sem Ómar hélt ekki en á fjærstöng var Mark Doninger mættur og potaði hann frákastinu yfir línuna.

Aðeins fáeinum mínútum síðar urðu Keflvíkingar fyrir áfalli þegar markaskorari þeirra, Guðmundur Steinarsson fór meiddur af velli. Í stað hans kom Hörður Sveinsson inn á en þetta var fyrsti leikur hans eftir að hann sneri heim frá Valsmönnum og átti hann heldur betur eftir að láta til sín taka.

Hann fékk gott færi stuttu síðar til að koma Keflvíkingum yfir en honum brást bogalistin. Það var hinsvegar annað upp á teningunum á 68. mínútu, þá átti Arnór Ingvi sendingu inn fyrir vörn Stjörnunnar og var Hörður mættur á undan Ingvari og skaut boltanum framhjá honum í autt netið.

Eftir þetta reyndu Stjörnumenn að jafna leikinn en náðu ekki að ógna af neinni alvöru. Það var svo Jóhann Birnir Guðmundsson sem kláraði leikinn á 91. mínútu, þá fékk hann stungusendingu inn fyrir vörn Stjörnunnar og var einn á auðum sjó. Hann hafði nægan tíma til að athafna sig og þrátt fyrir að Ingvar hafi verið í boltanum kom hann boltanum í netið og gerði út um leikinn. Eftir þetta fjaraði leikurinn út og unnu Keflvíkingar því góðan 3-1 sigur.

Hörður Sveinsson kom afar frískur af bekknum og var allt annað að sjá hann miðað við tíma hans hjá Val. Leikur Keflavíkurliðsins var flottur og halda þeir áfram að koma vel út á þessu tímabili þrátt fyrir spár um magurt gengi fyrir tímabilið.







Zoran: Ekkert kick-and-run„Mjög sterkur sigur, þetta er erfiður útivöllur gegn Stjörnunni sem eru vel mannaðir með stóra og sterka stráka sem spila flottan sóknarbolta," sagði Zoran Daníel Ljubicic, þjálfari Keflavíkur ánægður eftir leikinn.

„Fyrsta hálftímann spiluðum við mjög vel, sköpuðum fullt af færum til að skora 1-2 mörk í viðbót. Svo gleymum við okkur aðeins og fáum okkur jöfnunarmark, þá missum við nokkra menn útaf í meiðsli og við föllum aðeins aftur."

Keflvíkingar byrjuðu leikinn betur og áttu margar góðar sóknir með vindinn í bakinu og skoruðu stórglæsilegt mark úr langskoti.

„Mér fannst við spila mjög vel, boltinn gekk vel og það var ekkert kick-and run. Við fengum færi með spili og við vorum klaufar að nýta okkur ekki betur flott spil í sóknarleiknum."

Hörður Sveinsson átti flotta innkomu í kvöld en hann sneri aftur frá Valsmönnum fyrir stuttu.

„Hann stóð sig mjög vel, hann fékk gleðina strax aftur á fyrstu æfingu og hann verðskuldaði þetta mark. Þetta var flott mark og gríðarlega mikilvægt fyrir hann til að fá sjálfstraustið aftur. Ég veit ekki hvað gerðist hjá Val en hann þekkir strákanna hérna og það var ekkert vandamál að koma aftur."

Keflvíkingar minnkuðu bilið milli liðanna í aðeins eitt stig eftir leikinn í kvöld.

„Við höfum okkar eigin markmið og við viljum ekkert pæla í öðru en það. Við ætlum okkur að einbeita okkur að næsta leik gegn Akranesi og ég vil bara hugsa um það. Ég vill að strákarnir fari út og skemmti sér og spili góðan fótbolta, á meðan þeir gera það og leggja sig alla fram þá eigum við alltaf góða möguleika," sagði Zoran.

Bjarni: Vorum ekki nægilega vel stemmdir„Við vorum ekki nógu vel stemmdir í þennan leik og uppskárum ekki neitt, það var kannski við hæfi hérna í kvöld," sagði Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar eftir leikinn.

„Þeir komu grimmari inn í leikinn og skoruðu frábært mark en eftir það náðum við ágætis tökum á leiknum. Síðan koma hræðileg mistök í marki tvö sem setur okkur úr laginu og við förum að sækja sem auðveldar þeim þriðja markið."

Keflvíkingar byrjuðu leikinn vel og nýttu sér vel vindinn í bakinu.

„Markið var bara glæsilegt skot, Guðmundur nýtti sér vel aðstæðurnar. Við aðlöguðumst þó að þessu og mér fannst við vera betri í leiknum fram að marki númer tvö hjá þeim."

Stjarnan missti með þessu FH langt fram úr sér og nálgast meira baráttuna um miðja deild.

„Þetta er áfall fyrir okkur, við ætluðum okkur meiri hluti í deildinni og okkur tókst ekki að stimpla okkur inn hérna í kvöld. Vonandi verður þetta til þess að menn átti sig á að menn þurfa að leggja sig fram fyrir hvern einasta leik."



Hörður: Á einfaldlega heima í Keflavík„Það er alltaf gott að vera heima, mér leið mjög vel í kvöld og það er auðvitað frábært að byrja þetta með marki," sagði Hörður Sveinsson, leikmaður Keflavíkur eftir leikinn.

„Ég þekki þetta allt, flestir strákarnir voru hérna áður með mér auk þess að það eru margir nýjir spennandi ungir leikmenn. Það er alltaf mikilvægt að skora og að ná því í fyrsta leik er frábært, vonandi gerir það gott fyrir mig og liðið."

„Þessi sigur skrifast á liðsheildina, við vorum þéttir og breikuðum á þá vel og þetta var allt saman mjög gaman hér í kvöld."

Hörður kom inná fyrir Guðmund Steinarsson vegna meiðsla en Guðmundur hafði þá skorað gríðarlega fallegt mark.

„Það er enginn nema Gummi sem getur gert þetta, hann er með svo góða spyrnutækni að það er ekki eðlilegt."

Með sigrinum nálgast Keflvíkingar Stjörnuna og geta blandað sér í baráttuna um Evrópusæti haldi gott gengi þeirra áfram.

„Við tökum bara einn leik fyrir í einu og sjáum hverju að skilar okkur. Keflavík er með frábærann hóp með marga unga stráka sem eru að stíga upp á réttum tíma og eru með Keflavíkurhjartað á réttum stað."

Hörður var augljóslega ánægður og létt að vera kominn aftur til Keflavíkur.

„Þetta er eins og að bjóða spilafíkli í spilavíti, hann segir ekkert nei. Ég á einfaldlega heima hérna, þrátt fyrir að það hafi verið skemmtilegt í Val. Það var lærdómsrík reynsla og ég vill þakka þeim fyrir allt sem þeir gerðu fyrir mig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×