Íslenski boltinn

Umfjöllun: Dramatískur sigur Grindavíkur í Kórnum

Kolbeinn Tumi Daðason í Kórnum skrifar
Grindavík lenti 2-0 undir gegn Fylki en svaraði með þremur mörkum í síðari hálfleik og fagnaði þar með afar sætum sigri. Leikurinn fór fram í Kórnum í Kópavogi þar sem að Fylkisvöllur var óleikhæfur.

Fyrri hálfleikur fór frekar rólega af stað og bæði lið þreifuðu fyrir sér á iðagrænu gervigrasinu í Kórnum. Á 13. mínútu sendi Ingimundur Níels boltann fyrir markið frá hægri þar sem Gylfi Einarsson varð á undan Óskari Péturssyni markverði Grindvíkinga í boltann og skoraði fyrst mark leiksins. Markið var um leið það fyrsta á Íslandsmótinu 2011. Óskar og Gylfi skullu saman í markinu og þurfti Óskar að yfirgefa völlinn nokkrum mínútum síðar vegna meiðsla. Hans stöðu tók Englendingurinn nítján ára Jack Giddens.

Eftir markið tóku Fylkismenn öll völd á vellinum. Þeir voru öruggari í aðgerðum sínum á meðan Grindvíkingar áttu í erfiðleikum með að koma boltanum fram völlinn þar sem Michal Pospisil var einmana í stöðu fremsta manns. Á 27. mínútu áttu Fylkismenn góða sókn sem lauk með því að Tómas Þorsteinsson sendi boltann á kollinn á Ingimundi Níelsi Óskarsyni sem skallaði boltann snyrtilega framhjá Giddens. 2-0 og verðskulduð forysta Fylkis. Grindvíkingar virkuðu þreyttir, sendingar rötuðu ekki á samherja og ekkert sem benti til að þeir gætu komið sér aftur inn í leikinn. Í blálok hálfleiksins hrökk boltinn upp úr þurru til Orra Freys Hjaltalín sem sendi boltann á lofti í fjærhornið. Fínt mark og um leið líflína fyrir þá bláklæddu.

Í síðari hálfleik mættu Grindvíkingar mun ákveðnari til leiks og jafnt var á með liðunum. Scott Ramsey jafnaði metin eftir að maður leiksins Orri Freyr Hjaltalín skallaði boltann fyrir fætur hans. Barátta Grindvíkinga skilaði sér í spjöldunum en fjórir Grindvíkingar rötuðu í bókina hjá ágætum dómara leiksins Gunnari Jarli Jónssyni. Yacine Salem var heppinn að fjúka ekki út af með sitt seinna gula spjald en slapp með skrekkinn. Bæði lið langaði í stigin þrjú en það voru Grindvíkingar sem hirtu þau. Í viðbótartíma slapp varamaðurinn Magnús Björgvinsson einn í gegn og sendi boltann snyrtilega í fjærhornið við mikinn fögnuð Grindvíkinga.

Frábær byrjun Grindvíkinga á tímabilinu staðreynd en fæstir hafa spáð þeim velgengni. Fylkismenn litu virkilega vel út í fyrri hálfleik en nýttu ekki færin og geta svo sannarlega nagað sig í handarbökin.

Fylkir - Grindavík 2-3

Skot (á mark): 10-7 (6-5)

Varin skot: Bjarni 2 - Óskar/Giddens 4

Horn: 2-3

Aukaspyrnur fengnar: 12-12

Rangstöður: 2-1

Fylkir (4-3-3):

Bjarni Þórður Halldórsson 5

Andri Þór Jónsson 6

Kristján Valdimarsson 6

Þórir Hannesson 6

Kjartan Ágúst Breiðdal 6

Gylfi Einarsson 7

Andrés Már Jóhannesson 6

(84. Trausti Bjarni Ríkharðsson -)

Ingimundur Níels Óskarsson 7

(79. Rúrik Andri Þorfinsson -)

Tómas Þorsteinsson 6

(56. Jóhann Þórhallsson 5)

Albert Brynjar Ingason 6

Grindavík (4-3-3):

Óskar Pétursson -

(17. Jack Giddens 6)

Alexander Magnússon 6

Ólafur Örn Bjarnason 6

Bogi Rafn Einarsson 6

Ray Anthony Jónsson 4

Jamie McCunnie 6

Jóhann Helgason 6

Orri Freyr Hjaltalín 7 - maður leiksins

Yacine Si Salem 6

(89. Paul McShane -)

Scott Ramsay 7

Michal Pospisil 6

(78. Magnús Björgvinsson -)


Tengdar fréttir

Ramsey: Maggi er skrambi fljótur

Scott Ramsey leikmaður Grindavíkur var þreyttur en afar sáttur í leikslok. Hann sagði markið undir lok fyrri hálfleiks hafa skipt miklu máli.

Gylfi: Það virðist vera einhver draugur í þessu liði

Gylfi Einarsson var að vonum svekktur eftir tapið í kvöld. "Það virðist vera einhver draugur í þessu liði frá því á síðasta ári. Það er ekki nóg að vera yfir í hálfleik. Bara algjört einbeitingarleysi í þessum mörkum, við höfðum fulla stjórn á leiknum. Já, í fyrri hálfleik vorum við miklu betri en í rauninni líka í seinni hálfleik. Þeir skapa sér þrjú færi og skora þrjú mörk. Gott hjá þeim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×