Íslenski boltinn

Umfjöllun: Óskar bjargaði Grindavík

Ari Erlingsson á Grindavíkurvelli skrifar
Mynd/Stefán
Grindvíkingar tóku á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks í blíðunni á Grindavíkurvelli. Heimamenn voru fyrir leikinn í 10 sæti með 12 stig en Blikar sæti ofar með fimmtán stig. Það var því vona á hörkuleik milli þeirra tveggja liða sem höfðu fengið flest mörk á sig í deildinni. Mörkin voru þó ekki mörg í kvöld. Eitt hjá hvoru liði og niðurstaðan því jafntefli.

Blikarnir fengu óskabyrjun í leiknum þegar Kristinn Jónsson skoraði úr aukaspyrnu á tíundu mínútu. Glæsilegt mark hjá Kristni og eflaust eitt af mörkum sumarsins. Grindvíkingar voru arfaslakir í fyrri hálfleik og ógnuðu lítið sem ekkert marki Blika og í raun ótrúlegt að Íslandsmeistararnir hafi ekki refsað þeim enn frekar. Þeir komust nokkrum sinnum nærri og var Kristinn Steindórsson til að mynda óheppinn þegar skot hans úr aukaspyrnu hafnaði í stönginni. Grindvíkingar voru eins og áður er getið arfaslakir og áttu einungis eitt skot að marki allan fyrri hálfleikinn.

Ólafur Bjarnason þjálfari Grindvíkinga hefur líklegast gargað hressilega á sína menn í leikhlénu. Hauki Inga Guðnasyni var skipt inn á og það virtist hleypa lífi í heimamenn. Þeir gulklæddu sýndu betri sóknartilþrif og tilþrifin voru svo sannarlega glæsileg á 58. mínútu þegar Scott Ramsay hamraði boltann í markið á frá fjærstöng eftir frábæra sendingu frá Alexander Magnússyni.

Við markið færðist meira líf í leikinn og liðin sóttu til skiptis. Rafn Andri fékk dauðafæri auk þess sem Dylan Mcallister átti nokkra hættulega skalla að marki. Grindvíkingar áttu líka sín færi og það besta fékk Haukur Ingi Guðnason þegar hann virtist vera búinn að snúa Kára Ársælsson af sér inn í teig en Kári togaði í Hauk. Kristinn Jakobsson dómari dæmdi ekkert og voru Grindvíkingar virkilega ósáttir með þá ákvörðun. Undir lokinn fékk Rafn Andri sitt annað dauðfæri í leiknum en Óskar varði stórkostlega. Lokatölur 1-1. Ekki besti knattspyrnuleikur sumarsins en hann var spennandi og á köflum skemmtilegur.

Óskar Pétursson var besti maður heimamanna ásamt Scott Ramsay. Ramsay hefur líklegast oft verið í betra líkamlegu formi en samt sem áður spilaði hann virkilega vel í kvöld og það var synd að meðspilarar hans skyldu oft ekki fylgja honum betur með þegar gerði sig líklegan til þess að skapa eitthvað fram á við. Hjá gestunum bar Kristinn Jónsson af. Dylan Macallister var einnig frískur í framherjastöðunni en því miður fyrir Blika kom lítið sem ekkert úr Kristni Steindórssyni og til þess að sóknarleikur Blika virki almennilega þarf að virkja hann.

Grindavík – Breiðablik 1-1

0-1 Kristinn Jónsson (10.)

1-1 Scott Ramsay (58.)

Dómari: Kristinn Jakobsson (6)

Skot (á mark): 5–14 (2-6)

Varin skot: Óskar 5 – Ingvar 1

Hornspyrnur: 3–4

Aukaspyrnur fengnar: 13–11

Rangstöður: 4–1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×