Innlent

Ungt fólk borðar fisk sjaldnar - mikið kynslóðabil

Hefð Íslendinga fyrir fisk- og lýsisneyslu hefur hnignað með nýjum kynslóðum samkvæmt lækni sem skrifar í Læknablaðið. Áhyggjuefni segir hjartalæknir.

Það er Margrét Leósdóttir, hjarta- og lyflæknir sem vekur athygli á þessu í nýjasta hefti Læknablaðsins. Þar kemur fram að fiskneysla ungs fólks, á aldrinum átján til þrjátíu ára, er lítil, en aðeins fjörtíu og eitt prósent ungra karla borðuðu fisk einu sinni í viku, sjaldnar eða aldrei, en neysla kvenna á sama aldri er litlu betri, eða fjörtíu og fimm prósent. Þetta er mun minni fisk- og lýsisneysla en hjá eldri kynslóðum.

Sérstaða Íslands, hvað varðar ríkulega fiskneyslu, virðist því vera að hverfa með komandi kynslóðum að mati Margrétar.

Lýsisneysla á Íslandi hefur þó aukist frá síðustu könnun. Munurinn á lýsisneyslu ungra og gamalla er þó enn meiri en á fiskneyslunni, en ungir einstaklingar taka einungis þriðjung af því magni lýsis sem eldra fólkið tekur.

Lítil neysla á fiski og lýsi meðal ungs fólks er áhyggjuefni að mati Margrétar, í samfélagi þar sem offita og hreyfingarleysi eru einnig stór vandamál.

Hér er hægt að nálgast greinina í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×