Innlent

Upplifði sig sem annars flokks borgara hjá tannlækninum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sonur Guðrúnar Veigu.
Sonur Guðrúnar Veigu. vísir/aðsend
Sonur Guðrúnar Veigu Guðmundsdóttur er með glerungsgalla sem talinn er vera meðfæddur. Hann þurfti að fara í svæfingu vegna þess að nokkrir glerungslausir jaxlar voru komnir upp og þurfti að fjarlægja þá.

„Allt gekk þetta nú eins og í sögu. Svona þangað til að kom að því að greiða reikninginn,“ segir Guðrún Veiga í samtali við Vísi. Hún vakti athygli á málinu á bloggsíðu sinni. Kostnaðurinn við aðgerðina voru rúmar þrjú hundruð þúsund krónur.

„Meðan ég reyni að hunsa ítrekaðar hjartsláttatruflanir segi ég eitthvað um greiðsludreifingu. Konan horfir á mig eins og ég hafi beðið um að greiða reikninginn með plastflöskum.“

Tryggingastofnun kemur til með að niðurgreiða þriðjung af heildarupphæðinni. Eftir standa þá tvö hundruð þúsund krónur sem Guðrún þarf að leggja út fyrir, en Guðrún er námsmaður.

Hún hefur talað við stéttarfélagið sitt en segist koma að lokuðum dyrum.

Það er ekki á hvers manns færi að leggja út slíka upphæð og fannst Guðrúnu hún mæta dónaskap og fordómum á tannlæknastofunni.

„Börn þurfa svo sko að fara til tannlæknis á allavega hálfs árs fresti“ segir afgreiðslukonan og horfir hún enn á mig með dásamlegri fyrirlitningu líkt og ég hafi tannburstað barnið upp úr smjörkremi frá fæðingu.“

„Álit hennar á mér leyndi sér ekki. Þarna var ég - annars flokks borgarinn. Konan sem gat ekki staðgreitt tannlæknareikning afkvæmis síns.“

Guðrún ætlar þó að halda áfram viðskiptum við tannlæknastofuna sem hingað til hafi verið góð. Hún segir kostnaðinn við meðferð barnsins sláandi en greiðslunni verði skipt niður á sjö mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×