Innlent

Uppsóp er þrefalt á götum borgarinnar

Í aprílmánuði og líkast til eitthvað fram í maí verða götusóparar algeng sjón á götum Reykjavíkur. Svo mikið var sandað í vetur vegna hálku og snjóa að það tefur hreinsistarfið.
Í aprílmánuði og líkast til eitthvað fram í maí verða götusóparar algeng sjón á götum Reykjavíkur. Svo mikið var sandað í vetur vegna hálku og snjóa að það tefur hreinsistarfið. Fréttablaðið/Vilhelm
Vandséð er að tímaáætlanir haldi í vorhreinsun gatna í Reykjavík. Tíðarfar í vetur varð til þess að mun meira hefur safnast af sandi og drullu á götum borgarinnar. Jákvætt viðmót borgara sem færa bíla sína flýtir fyrir vinnunni.

Gífurlegt magn af sandi og drullu tefur hreinsistarf á götum og gangstéttum Reykjavíkur. Þessa dagana er unnið að hreinsun með kröftugum hreinsitækjum og má gera ráð fyrir slíkum framkvæmdum út mánuðinn hið minnsta.

„Eiginlega er það tíðarfarið sem búið er að vera í vetur sem veldur þessu,“ segir Lárus Kristinn Jónsson, framkvæmdastjóri Hreinsitækni sem annast hreinsun fyrir borgina. „Ég myndi halda að í vetur hafi verið sandað um það bil þrisvar sinnum meira en á miðlungsvetri. Ef ég man rétt er búið að dreifa á stéttar höfuðborgarinnar um 3.000 rúmmetrum af sandi.“

Verkið er svo að stórum hluta unnið með litlum gangstéttarsópum. „Sem dæmi má nefna að við hreinsun stétta á Snorrabraut vorum við búnir að fylla fimm sópa, en hver tekur um rúmmetra af efni, og áttum þá eftir einn þriðja af leiðinni. Vanalega hafa dugað einn eða tveir vagnar.“

Þar sem snjó hefur verið hraukað upp, svo sem við Laugardalslaug, segir Lárus ástandið svo jafnvel enn verra. „Við erum allt að því þrisvar sinnum lengur að þessu bara út af efnismagni.“ Lárus segir þó ánægjulegt að fólk komi gjarnan út og færi bíla sína frá til að auðvelda þrifin. Það flýti fyrir.

Ljóst er að mikill kostnaðarauki er af meira uppsópi og akstri og ekki fjarri lagi að þrefalt sandmagn þrefaldi líka olíukostnað við hreinsun. Kostnaðaraukann segir Lárus hins vegar líklega lenda á fyrirtækinu. „Þetta er náttúrlega bara allt í útboði hjá okkur og í föstum tölum.“

Samkvæmt áætlun átti vorhreinsunin að hefjast 15. mars og kveður Lárus fljótlega hafa komið hringingar frá borginni til að huga að verkinu og tímaáætlunum. „En fram til 19. mars var nú bara enn þá verið að moka snjó,“ segir hann og telur að miðað við aðstæður hefði verið nær að gefa fyrirtækinu rýmri tíma til að klára.

Samkvæmt upplýsingum frá borginni er þessa dagana unnið að hreinsun gatna í Háaleiti, Gerðum og Fossvogi og að því stefnt að ljúka fyrri yfirferð í þeim hverfum fyrir páska. Eins séu páskafrí nýtt til að hreinsa skólalóðir.

Þá kemur fram að til páska verði einnig lögð áhersla á hreinsun göngu- og hjólastíga enda megi búast við að fólk stundi hjólreiðar og útivist í páskafríinu. Áhersla verður lögð á helstu hjólaleiðir, svo sem um Fossvogsdal, Elliðaárdal upp í Víðidal og áfram upp að Rauðavatni. „Einnig verða leiðirnar meðfram Miklubraut og yfir Gerðin hreinsaðar.“ olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×