Innlent

Úrbætur fyrir einn milljarð

Mynd tengist frétt ekki beint.
Mynd tengist frétt ekki beint.
Áætlað er að fyrirhugaðar úrbætur á íslenskum jarðgöngum sem gera á fyrir árið 2014 muni kosta um einn milljarð króna. Óvíst er hvort tekst að bæta úr öryggismálum í göngunum fyrir þann tíma vegna óvissu um fjárframlög frá ríkinu.

Alls eru átta jarðgöng í notkun á landinu í dag, og stutt í að tvö til viðbótar verði tekin í notkun. Verulegar úrbætur þarf að gera á þremur jarðgöngum, og minniháttar úrbætur þarf að gera í þremur til viðbótar. Samanlagður kostnaður við úrbæturnar er áætlaður um einn milljarður króna.

Gísli Eiríksson, yfirmaður jarðgangadeildar Vegagerðarinnar, segir að mestar úrbætur þurfi að gera í Vestfjarðagöngum og í göngum sem liggja um Ólafsfjarðarmúla. Einnig þarf að gera umtalsverðar úrbætur á Hvalfjarðargöngunum. Þá þarf að gera minniháttar úrbætur á Fáskrúðsfjarðargöngum, Strákagöngum og göngum um Almannaskarð.

Samkvæmt evrópskri reglugerð frá árinu 2004 hafa ríki tíu ár til að koma göngum í það horf sem þar er kveðið á um. Með breytingunni voru reglur um öryggi í jarðgöngum hertar verulega, segir Gísli. Stefnt var á að ljúka úrbótum fyrir árið 2014, en óvíst er hvort fjárveitingar fást til þess frá ríkinu.

Formlega gildir evrópska reglugerðin aðeins fyrir vegi sem skilgreindir eru sem samevrópskir, segir Gísli. Hér á landi sé það í grófum dráttum þjóðvegur eitt, ásamt tengingum við Ísafjörð, Seyðisfjörð og Keflavík. Á þeirri leið eru aðeins þrjú göng; Hvalfjarðargöng, Fáskrúðsfjarðargöng og göngin um Almannaskarð.

Þrátt fyrir að reglugerðin taki ekki til annarra jarðganga á Íslandi segir Gísli að unnið sé miðað við sambærilega staðla í öðrum göngum, og því gerðar sambærilegar kröfur til öryggis.

Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar, rekstrarfélags Hvalfjarðarganga, segir að bæta eigi úr um 20 liðum fyrir árið 2014. Mikilvægustu úrbæturnar í öryggismálum séu þó þær að gera önnur göng við hlið núverandi ganga. Nauðsynlegar rannsóknir fyrir þá gangagerð hafi þegar verið unnar, en beðið sé eftir ákvörðun ríkisvaldsins um framhaldið.brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×