Innlent

Úrvalsnámsmaður rekinn úr landi vegna aldurs

Kanadískur íslenskunemi við Háskóla Íslands yfirgaf landið í dag að kröfu útlendingastofnunar. Hann er slíkur yfirburðanámsmaður í íslensku að hann er nú á öðru ári í Háskólanum, aðeins sautján ára gamall, en fær ekki að snúa aftur fyrr en hann hefur náð átján ára aldri.

Jordan Chark vakti fyrst athygli þegar rætt var við hann í Íslandi í dag í vor. Þá hafði hann kennt sjálfum sér íslensku á þremur árum, en hann hefur enga sérstaka tengingu við landið. Þá hafði hann aðeins einu sinni komið til landsins, en þjóðin vakti slíka hrifningu hans að hann kenndi sjálfum sér tungumálið á þremur árum og óskaði eftir íslenskum pennavinum með því að setja myndband af sjálfum sér á netið.

Jordan, sem er einungis sautján ára gamall komst svo inn í íslenskunám við Háskóla Íslands og flutti því til landsins fyrir mánuði síðan en strax í byrjun annar var honum tilkynnt að hann fengi allt fyrsta árið metið og mætti strax hefja nám á öðru ári, svo flinkur var hann í íslensku. Hann fékk jafnframt herbergi í stúdentagörðunum í Gamla Garði.

Fyrir stuttu tilkynnti Útlendingastofnun honum hins vegar að hann mætti ekki vera hérna á Íslandi og Jordan var því beðinn um að pakka saman og halda aftur til Kanada.

Í samtali við fréttastofu segir forstjóri útlendingastofnunar reglurnar vera skýrar. Þeim sem eru ekki orðnir átján ára verður ekki veitt dvalarleyfi á Íslandi en Jordan verður átján ára nú í desember. Því hafi hann verið beðinn um að yfirgefa landið en málið var jafnframt tilkynnt barnaverndarnefnd. Útlendingastofnun hafi enga heimild til að veita undanþágu frá reglunum.

Jordan segir hins vega háskólasamfélagið hafa tekið vel á móti sér og hyggst því koma aftur þegar hann verður orðinn átján ára.

Jordan kvaddi því vini sína í háskólanum í dag og flaug heim til Kanada þar sem hann þarf að bíða eftir því að verða nógu gamall. Vinir hans voru svo beygðir af harmi að þeir grétu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×