Innlent

Varar heyrnarskerta við ódýrum heyrnartækjum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tæki sem Heyrnar- og talmeinastöðin selur geta kostað hundruð þúsunda.
Tæki sem Heyrnar- og talmeinastöðin selur geta kostað hundruð þúsunda. fréttablaðið/Vilhelm
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ) varar heyrnarskerta við því að kaupa heyrnartæki án ráðgjafar frá fagaðilum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Kristján Sverrisson, forstjóri HTÍ, sendi fjölmiðla í gær.

Kristján segir að borið hafi á því að einstaklingar auglýsi stíft til aldraðra heyrnartæki til sölu. Auglýsingum hefur verið komið fyrir í sambýlum aldraðra, bornar út í póstkassa á elliheimilum, dvalarheimilum og víðar.

Kristján segir að þau tæki sem HTÍ hafi fengið að skoða séu kínversk framleiðsla og í þeim séu einfaldir hljóðmagnarar sem settir eru inn í hlustir viðkomandi. Tækin sé ekki hægt að aðlaga sérstaklega að heyrnarskerðingu viðkomandi einstaklings. „Þetta er einfaldur magnari sem bara hækkar öll hljóð inn í hlust, en þegar þú tapar heyrn þá gagnast það lítið,“ segir Kristján í samtali við Fréttablaðið. „Ég efast um að þetta henti mjög mörgum sem lausn,“ segir Kristján.

Þessi umræddu heyrnartæki sem HTÍ varar við kosta innan við 30 þúsund krónur.

Þau tæki sem HTÍ býður til sölu geta hins vegar kostað yfir 300 þúsund krónur, eða tífalt meira en þessi heyrnartæki sem Kristján varar við.

Kristján segir í samtali við Fréttablaðið að auglýsingum um þessi kínversku tæki hafi verið dreift um nokkurt skeið. „Það kom inn fatlaður maður og eiginkona hans í gær og höfðu fengið auglýsingar um helgina þannig að hann heldur áfram markaðsstarfsemi,“ segir Kristján.

Fréttablaðið náði tali af Þóri Gunnlaugssyni, sem flytur umrædd tæki inn. Hann líkir innflutningi og sölu á tækjunum við sölu á ódýrum gleraugum í versluninni Tiger. Þórir segir athugasemdir HTÍ byggðar á misskilningi. „Þeir vilja ekki að það komi neinn inn á þennan bisness þeirra, enda skiljanlegt,“ segir Þórir. Hann segist lána fólki tækið í eina viku gegn 2.000 króna greiðslu. „Síðan tekur fólk ákvörðun um það hvort það hefur not fyrir það eða ekki,“ segir hann.

Í reglugerð um sölu heyrnartækja segir að til sölu þeirra þurfi rekstrarleyfi ráðherra. Áður en ráðherra veitir rekstrarleyfi skuli hann óska eftir umsögn landlæknis um það annars vegar hvort þau heyrnartæki, sem rekstrarleyfishafi hyggst selja, og önnur lækningatæki, sem hann hyggst nota, uppfylli kröfur samkvæmt lögum um lækningatæki og hins vegar hvort umsækjandi sé fær um að veita nauðsynlega fagþjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×