Lífið

Veðurstofan í Kína fær Harald í stjórn

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Það er Kína í kortunum hjá veðurfræðingnum en hann hverfur þó ekki af skjánum svo ekki þarf að gera veður út af því.
Það er Kína í kortunum hjá veðurfræðingnum en hann hverfur þó ekki af skjánum svo ekki þarf að gera veður út af því. Fréttablaðið/Valli
Haraldur Ólafsson veðurfræðingur hefur verið ráðinn í stjórn Rannsóknastofnun kínversku veðurstofunnar.

Sjónvarpsáhorfendur sem búnir eru að venjast honum þurfa þó ekki að óttast því stjórnarstarfið verður ekki það tímafrekt að það taki hann af skjám landsmanna.



„Um er að ræða nýstofnaða Rannsóknastofnun kínversku veðurstofunnar í veðurspám,“ segir hann.

„Í kjölfar undirbúningsfunds í Shanghai í desember 2013 hefur verið unnið að því að koma stofnuninni á laggirnar. Það er að nokkru leyti gert með því að „kaupa“ Kínverja á vesturlöndum, einkum Bandaríkjunum til að koma „heim“.“

Markmið stofnunarinnar er í stuttu máli að þróa aðferðir til að gera betri veðurspár en unnt er nú. Áhersla er á óveður, einkum fellibylji, en einnig almennar spár um veður og loftgæði.



„Auðvitað er þetta viðurkenning á því sem ég og mínir félagar höfum verið að gera á undanförnum árum,“ segir Haraldur af sinni alkunnu hógværð.

Stofnunin er í Shanghai. (Scientific Steering Committee) Í stjórn hennar sitja, auk nokkurra fulltrúa frá Austur-Asíu, fjórir sérfræðingar frá vesturlöndum og er Haraldur einn þeirra.

Stjórnin mótar áherslur og stefnu stofnunarinnar í samvinnu við framkvæmdastjórann.

Fyrsti stjórnarfundur eftir formlega stofnun verður í Shanghai í nóvember 2014 og mun Haraldur sitja þann fund.



Í tengslum við stjórnarsetuna má einnig búast við samvinnu um ýmis afmörkuð verkefni á sviði veðurfræði.

Veðurfræðingurinn er fullur tilhlökkunar. Hann segir valinn mann í hverju rúmi hjá Kínverjunum.

Um sérfræðingana sem hann mun vinna með í austri segir hann að þeir séu sérlega vinnusamir.

„Þeir eru flestir tiltölulega ungir og hafa metnað til að sigra heiminn og það er mjög uppörvandi að hitta svona fólk sem hefur slíkan metnað og á innistæðu fyrir honum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×