Innlent

Veiddu ekki hval innan línunnar - gerðu bara að honum

Sjómenn gera að hvali. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.
Sjómenn gera að hvali. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint. Mynd / Gunnar Bergmann
„Dýrið var veitt fyrir utan línuna, það er alveg á hreinu. Aftur á móti var gert að því innan línunnar," segir Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri hrefnuveiðimanna ehf., sem á og rekur hvalveiðiskipið Hrafnreyði.

Landhelgisgæslan stóð bátinn að meintum ólöglegum veiðum en hann var innan svæðis í Faxaflóa, sem honum er óheimilt að veiða á.

Bátnum var vísað til Hafnarfjarðar þar sem mál hans verður tekið fyrir af viðkomandi lögreglustjóra eins og segir í tilkynningu frá gæslunni.

Gunnar Bergmann játar að skipverjar hafi gert að dýrinu innan línunnar en það er einnig ólöglegt samkvæmt reglugerð sjávarútvegsráðherra. Hann segir dýrið sjálft hinsvegar hafa verið veitt fyrir utan línuna, sem er tilkomin vegna hvalaskoðunariðnaðarins.

Sjálfur segir Gunnar að skipið hefði verið um hálfa sjómílu fyrir innan línunnar. Gunnari þykir leitt að þessi árekstur hafi orðið enda hafi hann sjálfur trú á því að hvalaskoðun og hvalveiði geti þrifist á sama tíma.

„Við munum setjast niður með skipstjóranum og skerpa á vinnulagsreglum hvað þetta varðar," segir Gunnar Bergmann sem hefur engan áhuga á því að ferðamenn verði vitni af því þegar sjómenn geri að dýrunum, sem getur komið óhugnanlega fyrir sjónir manna.

„Við erum ekki að leika okkur að því stuða nokkurn mann," segir Gunnar en útgerðin veiðir um 50 hrefnur á ári, en veiðitímabilið hófst í morgun.

Hann segir það eina jákvæða við þetta allt saman sé að fólk geti fengið ferskt hrefnukjöt í verslunum í næstu viku.

Aðspurður hvort hann búist við viðurlögum vegna veiðanna segist Gunnar svo sem alveg búast við sektargreiðslu. Hann segir atvikið þó minniháttar og vonar að útgerðin sleppi með áminningu.


Tengdar fréttir

Sagðir hafa stundað hvalveiðar á hvalaskoðunarsvæði

Landhelgisgæslan hafði afskipti af hvalveiðibáti sem var á veiðum innan ákveðinnar línu sem afmarkar svæði fyrir hvalaskoðun norður af syðra hrauni í Faxaflóa, en það var sjávarútvegsráðuneytið sem setti reglugerð um svæðið fyrir um tveimur árum síðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×