Viðskipti innlent

Verðmæti íslenskra minkaskinna hátt í 1,5 milljarðar í ár

Svipmynd frá uppboði Kopenhagen Fur
Svipmynd frá uppboði Kopenhagen Fur
Allt stefnir í metár í ár hjá íslenskum minkabændum og að útflutningsverðmæti skinna þeirra nemi hátt í hálfan annan milljarð króna.

Ekkert lát er á verðhækkunum á loðdýraskinnum hjá uppboðshúsinu Kopenhagen Fur í Kaupmannahöfn þar sem íslenskir minkabændur selja afurðir sínar. Raunar má segja að slegist hafi verið um skinnin á febrúaruppboðinu sem haldið var fyrir helgina og voru Kínverjar þar fremstir í flokki.

Meðalverð á skinnum hækkaði um 13% miðað við seinnihluta ársins í fyrra og fengu íslensku minkabændurnir um 500 danskar krónur eða ríflega 10.000 krónur að meðaltali fyrir skinnið. Alls voru seld um 20 þúsund íslensk skinn og útflutningsverðmætið því um 200 milljónir króna.

Björn Halldórsson formaður Samtaka íslenskra loðdýrabænda segir að á uppboðið í apríl fari um 40.000 skinn og álíka mikið á uppboðið í júní. Ef verðið helst jafnhátt á þessum uppboðun eins og allt bendir til má reikna með að tekjurnar á þeim fyrir íslensku búin nemi um 900 milljónum króna. Tvö önnur uppboð eru síðan seinni hluta ársins.

Alls voru seld íslensk minkaskinn fyrir 1,1 milljarða króna í fyrra.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×