Skoðun

Verðtrygging er ekki lögmál

Eygló Harðardóttir skrifar
Þegar verðtryggingu var komið á var um neyðarráðstöfun að ræða sem tryggja átti sparifé, lánsfé og laun. Forsendur þessara aðgerða voru að verðbólga hafði verið langtum meiri hér en hjá öðrum þróuðum ríkjum og vextir voru ekki frjálsir, sem kom í veg fyrir að fjármálastofnanir gætu brugðist við verðbólgunni. Það leiddi nánast til hruns á lánsfjármörkuðum og samhliða óhóflegrar erlendrar skuldasöfnunar. Þessar forsendur eru ekki lengur til staðar. Vaxtafrelsi tryggir að fjármálastofnanir geta brugðist við verðbólgu, ofgnótt er af innlendu lánsfjármagni og verðbólga er ekki mikið meiri hér en í öðrum þróuðum ríkjum í sögulegu samhengi.

Af hverju má þá ekki losa neytendur undan oki verðtryggingarinnar?

Nokkrar af þeim leiðum sem nefndar hafa verið til að afnema hana af samningnum neytenda eru bann við verðtryggingu neytendalána, breyting á vísitölunni og þak á hækkun verðbóta á ársgrundvelli. Þessar tillögur hafa verið gagnrýndar með þeim rökum að afnám í skrefum eða hreint bann muni skerða eignarrétt kröfueigenda og fela í sér hugsanlega afturvirkni.

Frá því almenn verðtrygging var innleidd hafa allar þessar leiðir verið farnar með lagasetningu og taldar standast stjórnarskrána. Árið 1972 ógiltu stjórnvöld verðtryggingu húsnæðislána með því að setja 7,75% hámark á verðtryggingu og vexti nokkurra árganga lána. Árið 1983 var útreikningi vísitölunnar breytt og aftur 1989. Árið 1995 var samsett lánskjaravísitala afnumin og vísitala neysluverðs sett í hennar stað og eldri lán tengd henni. Með breytingunni á vísitölunni væri því bæði hægt að draga úr hækkun lánanna og nýta til leiðréttingar lána. Verðtrygging hefur verið afnumin af launum og því ekkert því til fyrirstöðu að afnema verðtryggingu af neytendalánum.

Krafan um verðtryggingu varðar ekki verðgildi fjármuna heldur ávöxtunarkröfu fjármagnseigenda. Á síðustu fjórum árum hefur almenningur séð skuldir sínar hækka um tugi prósenta vegna verðbóta. Á sama tíma hefur verðmæti eigna og launatekjur staðið í stað eða lækkað.

Krafan um verðtryggingu er orðin krafa okrarans um pund af holdi.

Það er mál að linni.




Skoðun

Sjá meira


×