Innlent

Verslun opnar aftur í Hrísey á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Úr Hrísey.
Úr Hrísey. Mynd/Linda María
Rekstur nýrrar verslunar mun hefjast í Hrísey á morgun, en engin verslun hefur verið starfsrækt í eynni eftir að Júllabúð lagðist af.

Fundur var haldinn í apríl síðastliðinn þar sem áform um stofnun hlutafélags um rekstur verslunar í Hrísey voru kynnt. Í tilkynningu frá Akureyrarbæ segir að öllum hafi gefist kostur á að gerast hluthafar, íbúum eyjarinnar, sumarhúsaeigendum og öðrum velunnurum.

„Þann 20. apríl var kynningarfundur sem um fjörtíu manns sóttu. Á fundinum voru kynnt drög að rekstraráætlun og áætluðum stofnkostnaði. Góðar umræður spunnust og voru fundarmenn almennt mjög jákvæðir. Á fundinum var hægt að gefa vilyrði fyrir hlutafé í hinu óstofnaða félagi og voru nokkrir sem staðfestu hlut sinn.

Í byrjun maí var stofnað hlutafélag um verslunarrekstur í Hrísey og heitir það Hríseyjarbúðin ehf. Alls söfnuðust 3.8 milljónir króna í hlutafé og standa 55 hluthafar á bak við þá upphæð,“ segir í tilkynningunni.

Linda María Ásgeirsdóttir í Hrísey segir ófáar vinnustundirnar liggi nú að baki opnuninni og ótrúlegt hvað fólk sé búið að leggja á sig mikla vinnu til að koma þessu á koppinn. „Búið er að ráða starfsmann í verslunina í sumar og nú er verið að leggja lokahönd á framkvæmdir. Von á fyrstu vörusendingunni í dag og svo er bara að opna og koma lífi í húsnæðið.“

Búðin verður opnuð á morgun klukkan 16 og verður opin alla daga í sumar frá klukkan 10 til 18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×