Verulega hefur dregið úr ungbarnadauða í heiminum á undanförnum árum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Unicef, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.
Í skýrslunni kemur fram að tæplega 7 milljónir barna undir fimm ára aldri létust í heiminum á síðasta ári. Til samanburðar létust 12 milljónir barna undir þessum aldri árið 1990 eða fyrir rúmum 20 árum síðan.
Unicef segir að hluti af skýringunni á þessari miklu fækkun á ungbarnadauða í heiminum sé að fátækari þjóðir hafi orðið efnaðri á þessu tímabili. Einnig hefur markviss aðstoð til fátækari þjóða ásamt bólusetningum haft sitt að segja.
Mesta fækkunin á ungbarnadauða var hjá þeim þjóðum sem hafa fengið mikla aðstoð frá alþjóðasamfélaginu. Þannig er talið að bólusetningar gegn sjúkdómum eins og mislingum hafi valdið því að andlát af völdum slíkra sjúkdóma hefur fækkað úr hálfri milljón barna árið 2000 og niður í 100.000 í fyrra.
Fram kemur að helmingur allra ungbarnadauða í heiminum í fyrra átti sér stað í aðeins fimm löndum. það eru Indland, Nígería, Lýðveldið Kongó, Pakistan og Kína.
Erlent