Skoðun

Við búum í ofbeldisfullum heimi

Óttar Norðfjörð skrifar
Við búum í ofbeldisfullum heimi. Við búum í heimi sem ég skil ekki alltaf. Fólk gerir hluti sem ég skil ekki og heilu samfélögin sömuleiðis.

Við búum í ofbeldisfullum heimi en á morgun ætlum við að sameinast til að mótmæla því. En hvernig mótmælir maður ofbeldi? Einfaldlega með því að láta í sér heyra. Því fleiri sem láta sig málið skipta, því meiri er samstaðan og því minna pláss fá ofbeldismennirnir.

Menn sem beita ofbeldi eru sjúkdómur á samfélagi okkar sem við þurfum að lækna í sameiningu. Það er einlæg trú mín að það sé hægt að útrýma ofbeldi úr samfélagi okkar. Við eigum enn langt í land, því ofbeldið liggur djúpt í menningu okkar, en það er hægt. Við þurfum öll að hjálpast að, vakna, opna augun, stoppa og hugsa.

Á morgun ætlum við að hittast og sýna samstöðu og mótmæla einni útbreiddustu tegund ofbeldis sem fyrirfinnst og það er ofbeldi karla gegn konum; því ofbeldi sem hefur verið normalíserað í öllum heimshornum. Viðbjóðslegu ofbeldi sem þrífst daglega og við álítum einhverra hluta vegna sjálfsagt. Ofbeldi sem við Íslendingar munu að öllum líkindum lesa um eftir einungis nokkra daga þegar Verslunarmannahelgin gengur í garð.

Einhver spekingur sagði einu sinni: „Það vilja allir breyta heiminum, en það vill enginn breyta sjálfum sér.“ Það er kannski málið. Á meðan við látum eins og ofbeldi karla gegn konum sé ekki til heldur það áfram að þrífast. Við þurfum að breyta sjálfum okkur og hugsunarhætti okkar og viðurkenna og mótmæla ofbeldinu gegn konum alls staðar í kringum okkur. Þá fyrst getur heimurinn breyst og orðið betri. Það er einlæg trú mín.





Óttar Norðfjörð, rithöfundur

Druslugangan verður farin í þriðja sinn þann 27. júlí, nk.



Með Druslugöngunni viljum við færa ábyrgð kynferðisglæpa frá fórnarlömbunm og yfir á gerendur. Við viljum ekki einblína á klæðnað, hegðun eða fas þolenda sem mögulega afsökun fyrir glæpamenn. 

Við viljum einfaldlega að menn hætti að nauðga.



Gangan verður farin frá Hallgrímskirkju klukkan 14:00, niður Skólavörðustíg, Bankastræti og mun enda á Austurvelli þar sem við taka fundarhöld og tónleikar.




Skoðun

Sjá meira


×