Innlent

Viðskiptasamningar féllu sennilega niður við aðild

Ísland yrði framvegis að gera viðskiptasamninga í gegnum ESB.
Ísland yrði framvegis að gera viðskiptasamninga í gegnum ESB.
Óvíst er hvað verður um tvíhliða viðskiptasamninga sem Ísland hefur gert, gangi landið í Evrópusambandið (ESB). Þó verður að teljast líklegt að framkvæmdastjórn ESB ógildi samningana. Þetta var meðal þess sem fram kom í erindi austurríska lögmannsins Niklas Maydell á opnum fundi Lagastofnunar Háskóla Íslands á fimmtudag.

Maydell benti á að með gildistöku Lissabon-sáttmálans 2009 hefði vald yfir gerð tvíhliða viðskiptasamninga færst frá aðildarríkjunum til leiðtogaráðs ESB. Íslensk stjórnvöld gætu því eftir inngöngu ekki gert slíka samninga við önnur ríki nema í gegnum ESB.

Maydall sagði ríki ESB um þessar mundir vera að semja um að þeir tvíhliða viðskiptasamningar sem ríkin höfðu gert fyrir gildistöku Lissabon-sáttmálans haldi gildi sínu. Sá fyrirvari yrði þó á að samningarnir mættu ekki ganga í berhögg við löggjöf ESB auk þess sem þeir myndu falla niður þegar ESB sem heild hefði gert viðskiptasamning við viðkomandi ríki.

Þar sem Ísland hefði hins vegar ekki verið í ESB fyrir gildistöku Lissabon-sáttmálans væri líklegt að framkvæmdastjórn ESB myndi ógilda viðskiptasamninga Íslands eftir aðild nema samið yrði um annað í aðildarviðræðunum.

Í nýlegri skýrslu utanríkisráðherra segir að gerð hafi verið greining á áhrifum þess að Ísland fengi aðild að neti fríverslunarsamninga ESB í stað núverandi samninga. „Niðurstaða þeirrar greiningar er að miðað við útflutning undanfarinna ára verði almennt ekki mikil breyting á markaðsaðgangi til þriðju ríkja, komi til aðildar,“ segir þar. - mþl



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×