Viðskipti innlent

Vilhjálmur Egilsson: Samfylkingin er ómálefnaleg - ekki við

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir ekki ómálefnalegt að gera kröfu um sátt um framtíð fiskveiðistjórnunarkerfisins í kjaraviðræðum. Hann segir ómálefnalegt hjá Samfylkingunni að láta eins og ekkert atvinnuleysi sé í landinu meðan 14 þúsund eru án atvinnu.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, gagnrýndi Samtök atvinnulífsins harkalega á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í gær og sagði að grímulaus valdaklíka LÍÚ hefði þvingað samtökin til að taka kjarasamninga í landinu í gíslingu. Hún sagði að Samtök atvinnulífsins yrðu að snúa aftur að samningaborðinu.

Aðspurður hvort um málefnalega afstöðu sé að ræða segir Vilhjálmur: „Það er mjög málefnalegt vegna þess að við erum að tala um málefni. Fyrst og fremst. Við erum að tala um sátt, við erum að tala um samningaleiðina, við erum að tala um að við Íslendingar getum horft fram á veginn og náð atvinnuleysinu niður."

Vilhjálmur segir ekki málefnalegt hjá Samfylkingunni að senda frá sér ályktun um atvinnumál án þess að minnast einu orði á atvinnuleysið. „Þegar við við erum með 14 þúsund manns atvinnulausa eða 8% af vinnuaflinu."

Spurðu hvað felist í þeirri sátt sem hann talar fyrir svarar Vilhjálmur: „Sáttin felst í því að útfæra samningaleiðina sem að allir sem einhverju máli skipta voru sammála um að fara í september síðastliðnum. Það er búið að ná samkomulagi um grundvallarbreytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu sem felst í svokallaðri samningaleið þar sem forræði ríkissins er algerlega viðurkennt. Þjóðin á auðlindina. Það er engin að deila um það en spurningin er hins vegar um það hvernig eigi að útfæra nýtingu á þessari auðlind."

Vilhjálmur segir að það myndi koma sér verulega á óvart ef að ríkisstjórnin færi einhverja aðra leið en samningaleiðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×