Innlent

Vilja að Landspítalinn taki afstöðu til mótmælahópsins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bryndís Björnsdóttir var berbrjósta við Landspítalann í dag og mótmælahópurinn Lífsvernd bað fyrir eyddum fóstrum líkt og alla þriðjudaga.
Bryndís Björnsdóttir var berbrjósta við Landspítalann í dag og mótmælahópurinn Lífsvernd bað fyrir eyddum fóstrum líkt og alla þriðjudaga. Vísir/Ernir
Bryndís Björnsdóttir fækkaði fötum við Landspítalann í dag og afhenti Önnu Sigrúnu Baldursdóttur, aðstoðarmanni forstjóra spítalans, undirskriftalista sem tæplega 1200 manns rituðu nafn sitt á.

Með listanum er spítalinn hvattur til að taka afstöðu til mótmælahópsins Lífsverndar sem alla þriðjudaga hittist fyrir utan kvennadeild Landspítalans og biður fyrir eyddum fóstrum.

Bænahópurinn var á sínum stað við Kvennadeild spítalans í hádeginu í dag auk Bryndísar og þriggja annarra kvenna.

„Þetta er góður dagur til að bera brjóstin. Sólin skín og það er vor í lofti,“ sagði Bryndís í samtali við blaðamann Vísis í hádeginu.

Hún ákvað að grípa tækifærið og tengja afhendingu undirskriftalistans við brjóstabyltinguna svokölluðu.

Hyggst ekki mæta fyrir framan spítalann á hverjum þriðjudegi

„Mér fannst alveg tilefni til þess þar sem það var komin fram þessi birtingarmynd að konur voru að bera á sér brjóstin til að sýna að þær hefðu rétt yfir líkama sínum og lífi. Ég vildi því bara taka undir með því, nota tilefnið og afhenda undirskriftirnar.“

Bryndís vonast til þess að Landspítalinn taki afstöðu til mótmælahópsins.

„Við sem skrifum undir þennan lista teljum að þessi mótmæli séu áreiti í garð kvenna því það eru um 1000 konur sem ganga um þessar dyr á hverju ári.“

Aðspurð hvort að Bryndís hyggist mæta á hverjum þriðjudegi fyrir framan Kvennadeildina ef undirskriftalistinn skilar ekki einhverju strax sagði hún:

„Ég myndi telja að ég væri þá að ganga undir þeirra forsendur og myndi ekki telja það æskilegt, nei.“


Tengdar fréttir

Biðja fyrir eyddum fóstrum við Kvennadeild Landspítalans

„Við biðjum fyrir vernd fyrir ófædd börn og stöðvun á fóstureyðingum. Við biðjum fyrir hugarfarsbreytingu til fóstureyðinga því við trúum að ófædd börn séu líka manneskjur og þau eigi að fá möguleika á að lifa,“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×