Innlent

Vilja aðgerðir vegna Rússafisks

Eftirlitsstofnun EFTA hefur farið þess á leit að íslensk og norsk stjórnvöld tryggi að ekki verði fluttur Rússafiskur til landa á evrópska efnahagssvæðinu frá rússneskum fyrirtækjum sem ekki hafa fengið löggildingu Evrópusambandsins. Samkvæmt reglum Evrópusambandsins má aðeins flytja inn frosinn fisk frá rússneskum fyrirtækjum sem hafa vottun upp á að þau uppfylli gæðakröfur sambandsins. Ber stjórnvöldum að tryggja að ekki verði fluttur inn fiskur frá öðrum fyrirtækjum til sölu í ríkjum Evrópusambandsins. "Fyrir nokkrum árum var talsvert um slíkar sendingar en það hefur dregið úr því síðustu ár," segir Ketil Rykhus, sem fer með eftirlit með fiski, um stöðuna á Íslandi. Enn er þó ekki búið að taka alveg fyrir þetta og leitar Eftirlitsstofnunin því eftir viðbrögðum íslenskra og norskra stjórnvalda. "Ég er viss um að við eigum eftir að eiga einhvers konar viðræður við íslensk stjórnvöld áður en fresturinn rennur út," segir Rykhus. "Við höfum gefið Íslandi lokafrest til að svara, vegna sumarfríanna er hann þrír mánuðir." Bregðist íslensk stjórnvöld ekki við getur Eftirlitsstofnunin vísað málinu til Evrópudómstólsins.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×