Innlent

Vilja banna Passíusálmana vegna gyðingahaturs

Rabbíinn Abraham Cooper, aðstoðarforseti hjá Simon Wiesenthal stofnuninni í Los Angeles, hefur ritað Páli Magnússyni útvarpsstjóra bréf þar sem þess er krafist að Ríkisútvarpið hætti að flytja Passíusálma Hallgríms Péturssonar, eins og tíðkast ætíð á páskum. Stofnunin berst fyrir réttindum gyðinga um heim allan en Simon Wiesenthal sjálfur helgaði líf sitt leitinni að stríðsglæpamönnum nasista.

Í bréfinu, sem birt er á bloggi Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar, segist Abraham hneykslaður á andgyðinglegum tóni sem víða sé að finna í sálmunum. „Það eru fleiri en 50 tilvísanir til gyðinga, sem allar eru neikvæðar, flestar styðja þær við hatursfullar hugmyndir um gyðinga sem lögðu grunninn að ofsóknum og hatri í garð gyðinga í tvöþúsund ár."

„Það er óhugsandi að slík ósvinna sé höfð frammi, og enn verra er að henni sé útvarpað í nútímalegu lýðræðisþjóðfélagi. Sú staðreynd að andgyðinglegur áróðurinn sé lesinn upp af mikilsvirtum þjóðfélagsþegnum gerir ekkert annað en að styrkja hatursáróðurinn gegn gyðingum og eitra huga nýrra kynslóða."

Með bréfinu fylgja dæmi úr Passíusálmunum sem Cooper segir renna stoðum undir mál sitt. „Með mikilli virðingu, en af fullri alvöru, biðjum við þig og aðra forsvarsmenn Ríkisútvarpsins að hætta í eitt skipti fyrir öll að útvarpa Passíusálmunum. Íslenska þjóðin og gyðingar eiga betra skilið."

Ekki náðist í Pál Magnússon við vinnslu fréttarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×