Innlent

Vilja breyta lagasetningu um forsjá barna óháð hjúskap

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Jafnvel þótt foreldrar þekkist lítið þegar barnið fæðist þá er það skuldbinding beggja að taka ábyrgð á barninu, segir Sigrún Júlíusdóttir félagsráðgjafi.
Jafnvel þótt foreldrar þekkist lítið þegar barnið fæðist þá er það skuldbinding beggja að taka ábyrgð á barninu, segir Sigrún Júlíusdóttir félagsráðgjafi. Vísir / Getty
„Þetta hlýtur að vera næsta skref sem við horfum til,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, um þá skoðun Haraldar Einarssonar, þingmanns Framsóknarflokks, að forsjá barns sé sameiginleg óháð hjúskaparstöðu foreldra.

Eygló Harðardóttir
Haraldur sagði á Alþingi að ekkert réttlæti eða jafnrétti væri í þeirri lagasetningu að ef foreldrar eru ekki í hjúskap eða sambúð þegar barnið fæðist þá fái móðirin sjálfkrafa fullt forræði. Hann sagði lögin hrópandi tímaskekkju sem þurfi að betrumbæta með hagsmuni barna að leiðarljósi enda hljóti markmiðið að vera að barnið hafi jafnan rétt til beggja foreldra sinna.

Eygló tekur undir orð Haraldar og fagnar því að karlmenn tjái sig meira um jafnréttismál og beiti sér fyrir jafnrétti á öllum sviðum. 

„Við sjáum mikla viðhorfsbreytingu hjá ungum karlmönnum. Rannsóknir sýna að ungum karlmönnum í dag finnst mikilvægt að vera umhyggjusamir og góðir feður. Það er hluti af því að vera flottur karl,“ segir Eygló. 

Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og fjölskylduráðgjafi hjá Tengslum, hefur unnið með fjölda foreldra og kynnst öllum gerðum fjölskyldna. Hún segir að með sameiginlegri forsjá beri foreldrar saman ábyrgð. 

„Aðalatriðið er réttur barnsins til ábyrgðar beggja foreldra. Þetta snýst ekki aðeins um að fá að hitta foreldri sitt og eiga gæðasamvistir, heldur þurfa báðir foreldrar að axla ábyrgð. Með því er tilfinningasambandið ræktað um leið.“ 

Sigrún Júlíusdóttir
Sigrún segir það hvatningu til foreldra að axla ábyrgð með því að hafa lögbundinn rétt.

„Það hvetur báða foreldra til að leggja sitt af mörkum og þá er líka hagur barnsins tryggður. Jafnvel þótt foreldrarnir þekkist lítið og ekki sé um fast samband að ræða þá er það skuldbinding að eignast barn. Þótt þú hafir ekki valið eitthvað þá þarftu samt að bera ábyrgð á því.“

Sigrúnu finnst ekki heppilegt að annað foreldrið, og annað kynið, beri eitt ábyrgð á barni.

„Þetta er stór hluti ástæðunnar fyrir bágri stöðu einstæðra mæðra. Ég tel að breyting á þessari lagasetningu myndi jafna þeirra hlut.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×