Viðskipti innlent

Vilja ekki lána til Íslands

Íslensk fyrirtæki eru í efnahagslegu stofufangelsi, segir forstjóri stoðtækjafyrirtækisins Össurar. Fréttablaðið/gva
Íslensk fyrirtæki eru í efnahagslegu stofufangelsi, segir forstjóri stoðtækjafyrirtækisins Össurar. Fréttablaðið/gva
„Þetta var algjör krafa hjá bönkunum. Þeir treysta ekki lagaumhverfinu hér," segir Jón Sigurðsson, forstjóri stoðtækjafyrirtækisins Össurar, um kvaðir í rúmlega 230 milljóna dala endurfjármögnunarsamningi fyrirtækisins við norrænu bankana Nordea og SEB auk ING Bank í Hollandi, til næstu fimm ára. Upphæðin jafngildir 27 milljörðum króna.

Fjármögnunin fer í gegnum erlend félög Össurar í Evrópu og Bandaríkjunum og veð eru aðeins tekin í starfsemi þar. Móðurfélagið hér á landi er ekki gjaldgengur lántakandi. Þá eru stífar kvaðir á lánveitingunni: framkvæmdastjórn Össurar er óheimilt að flytja annað af fénu hingað en það sem fer í uppgreiðslu á skuldum við Arion banka og til daglegs rekstrar. „Ein af kröfum bankanna var að íslenska móðurfélagið kæmi hvergi nærri lántökunni. Það var forsenda þess að við fengjum lánið og þessi kjör," segir Jón. Honum gremst hins vegar að önnur fyrirtæki hér hafi ekki sama aðgang að lánsfé erlendis og Össur.

Forsvarsmenn íslensks atvinnulífs segja þetta sorglegar fréttir. „Við sjáum enga framtíð fyrir nútímaatvinnulíf hér með gjaldeyrishöft og lokaðan fjármagnsmarkað. Það er eitt af lykilatriðum til að efla trú á landinu og efla fjárfestingar að höftin hverfi og að íslenskur fjármagnsmarkaður tengist útlöndum á eðlilegan hátt," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Erlendar lánastofnanir vantreysta ekki íslenskum fyrirtækjum heldur því umhverfi sem þau búa við," segir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. „Þar vísa ég til tilviljunarkenndrar og oft órökréttrar lagasetningar, versnandi skattaumhverfis, gjaldeyrishafta og frjálslegrar meðferðar stjórnvalda á stjórnsýslulögum og stjórnarháttum."

„Íslensk fyrirtæki eru í efnahagslegu stofufangelsi," segir forstjóri Össurar. „Við getum gert þetta vegna þess að við erum með okkar starfsemi erlendis, dótturfélög úti og tekjur þar. Við erum því í forréttindaklúbbi." - jab





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×