Innlent

Vilja leggja grunninn að nýjum stöðugleikasáttmála

Stöðugleikasáttmálinn undirritaður.
Stöðugleikasáttmálinn undirritaður. Mynd/Stefán Karlsson

Forvígismenn vinnuveitenda og launþega, á opinbera og almenna vinnumarkaðnum, ætla að fara yfir komandi kjarasamningsgerð á fundi á morgun. Mun Magnús Pétursson ríkissátta­semjari stýra fundinum.

„Það er nauðsynlegt að allir aðilar vinnumarkaðarins komi saman og ræði málin,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sem boðaði til fundarins. Samtökin telja mikilvægt að allir séu samtaka í samningagerðinni, en flestir samningar renna út í lok þessa mánaðar eða næsta. „Við viljum að niðurstaðan verði samningur til þriggja ára með hóflegum launahækkunum,“ segir Vilhjálmur. Forsenda þess sé að verðbólga verði lág og störf skapist.

Aðspurður segir hann hugsanlegt að út úr fundinum komi grunnur að nýjum stöðugleikasáttmála. „Við viljum kanna hvort menn séu tilbúnir til að reyna að fara slíka leið.“ Spurður hvort hann sé fyrir fram bjartsýnn á að sú verði niðurstaðan segir hann: „Ég spyr, hvaða betri leið er í boði? Ég held að það sé engin betri leið í boði.“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, vill fátt segja um möguleikann á nýjum sáttmála en bendir hins vegar á að á sambærilegum fundi í febrúar 2009 hafi uppleggið að sáttmálanum hinum fyrri orðið til.

Einnig bendir hann á að á ársfundi ASÍ fyrir mánuði hafi verið ályktað að mikilvægt væri að efnt yrði til víðtæks samstarfs og samvinnu stjórnvalda, stjórnarandstöðu, atvinnurekenda og stéttarfélaga á almennum og opinberum vinnumarkaði við það verkefni að fjölga störfum og auka og tryggja kaupmátt launafólks.

Inntur álits á hugmyndum SA um kjarasamning til þriggja ára segir Gylfi að til að ræða þær þurfi aðkomu ríkisvaldsins í efnahags- og atvinnumálum. Þær forsendur liggi ekki fyrir.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir að fyrir fundinum liggi að kanna hvort einhverjar línur liggi saman sem hægt sé að vefa úr. „Við mætum með okkar nesti og hlustum á aðra.“- bþs

Vilhjálmur Egilsson
Gylfi Arnbjörnsson


Elín Björg Jónsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×