Innlent

Vilja leyfa áfengisauglýsingar

BBI skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Félag atvinnurekenda vill að áfengisauglýsingar séu að meginreglu heimilar en þó með ströngum takmörkunum. Félagið sendi Alþingi umsögn um fyrirhugaðar breytingar á áfengislögum sem miða að því að skýra bann við áfengisauglýsingum.

Eins og fjallað hefur verið um á Vísi og í Fréttablaðinu hefur mikið borið á áfengisauglýsingum síðustu misseri þrátt fyrir að þær séu í orði kveðnu ólöglegar. Með breytingum á áfengislögum stendur til að herða bannið gegn slíkum auglýsingum, m.a. með því að gera auglýsingar ólöglegar á léttöli í sambærilegum umbúðum og áfengur bjór.

Félag atvinnurekenda telur að það frumvarp sé haldið verulegum annmörkum. Auglýsingabannið er talið óraunhæft og erfitt í framkvæmt og þykir auk þess brjóta gegn stjórnarskrárbundnu tjáningarfrelsi og stjórnskipulegri meðalhófsreglu.

Tjáningarfrelsi

Stjórnarskráin ver tjáningarfrelsi almennings en þar kemur einnig fram að heimilt sé að hefta tjáningarfrelsi fólk í ákveðnum tilgangi, m.a. til verndar heilsu fólks. Þær skorður mega hins vegar ekki vera umfangsmeiri en nauðsynlegt er. Með því að banna áfengisauglýsingar alfarið telur Félag Atvinnurekenda að gengið sé of langt, þ.e. meðalhófsregla stjórnarskrár sé brotin. Þeir benda t.d. á að rannsóknir sýni að áfengisauglýsingar auki ekki magnið sem neytendur kaupa af áfengi og því séu þær ekki besta úrræðið til að vernda heilsu almennings.

Vert er að benda á að íslenskir dómstólar hafa áður skorið úr því álitaefni hvort bann á áfengisauglýsingum sé andstætt stjórnarskrá og komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Í dómi Hæstaréttar númer 648/2006 var því til að mynda slegið föstu að bann við áfengisauglýsingum bryti hvorki í bága við stjórnarskrá né Mannréttindasáttmála Evrópu. Félag atvinnurekenda vill engu að síður meina að vafi leiki á því hvort auglýsingabannið geti brotið gegn stjórnarskrá, t.d. sökum þess að áfengisbannið gangi lengra en þörf krefur til að vernda þá hagsmuni sem áfengisbannið byggist á, samkvæmt upplýsingum frá Björg Ástu Þórðardóttur, lögfræðingi hjá Félagi atvinnurekenda.

Áfengisauglýsingar að meginreglu heimilar

Félagið vill að áfengisauglýsingar séu almennt leyfðar en þó með skýrum takmörkunum. „Það yrði að útfæra þær nánar, en t.d. mætti kannski sýna bjór og bjórmerki í auglýsingunum en ekki tengja það við ánægjulega upplifun eða gleði," segir Björg. Félagið leggst því gegn því að bann við áfengisauglýsingum sé hert.

Hér má nálgast umsögn Félags atvinnurekenda, en athygli var vakin á henni inn á vef spyr.is í dag.


Tengdar fréttir

Áfengisauglýsingar færast á Facebook

„Þessar auglýsingar eru að færast rosalega mikið inn á Facebook og alla þessa miðla,“ segir Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×