Innlent

Vilja rigningu til að skola Grímsvatnaöskunni burt

Kristján Már Unnarsson skrifar
Úrhellsrigningar er það sem bændur í Skaftárhreppi óska sér nú heitast til að losna við öskuna úr Grímsvötnum. Undir Eyjafjöllum er verið að setja Svaðbælisá í nýjan farveg og með því vonast menn til að vandræðin sem hlutust af eldgosinu úr Eyjafjallajökli verði að mestu úr sögunni.

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá hvernig himininn yfir Kirkjubæjarklaustri breyttist á skammri stundu í gærmorgun. Um níuleytið var þar stillt veður, heiður himin og engin aska. Tveimur tímum síðar, þegar vind hreyfði, þá lagðist öskumistrið yfir allt. Á svona dögum eiga bændur sér bara eina ósk, að fá rigningu, og það mikla.

"Nú á að fara að rigna og þá kemur blóm í haga," sagði ráðherrann fyrrverandi á Seglbúðum, Jón Helgason.

Og sú var líka reynslan frá gosinu úr Eyjafjallajökli fyrir tveimur árum en þar hefur dregið verulega úr öskufoki og úrkoman skolað öskunni burt. Í viðtali við bóndann á Þorvaldseyri, Ólaf Eggertsson, kemur fram að askan virðist ekki hafa spillt gróðri þar til langframa.

Það er helst að Svaðbælisá hafi verið til vandræða vegna mikilar ösku sem berst í hana af Eyjafjallajökli en það horfir nú til bóta því Suðurverk er að grafa nýjan farveg á 700 metra kafla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×