Erlent

Vilja samhæfða stefnu

Sarkozy og Merkel kölluðu eftir sameiginlegri hagstjórn evruríkjanna til að verja sameiginlegan gjaldmiðil. Hér sést Sarkozy taka á móti Merkel við komuna til Elysée-hallar í París.
Sarkozy og Merkel kölluðu eftir sameiginlegri hagstjórn evruríkjanna til að verja sameiginlegan gjaldmiðil. Hér sést Sarkozy taka á móti Merkel við komuna til Elysée-hallar í París. Fréttablaðið/AP
Samhæfðari stefna í efnahagsmálum er að mati Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, nauðsynleg til að verja evruna. Hún lét þessi orð falla í gær eftir fund með Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta, en meðal þess sem þau leggja til er sameiginleg hagstjórn á evrusvæðinu.

Mikill óróleiki hefur verið í efnahagslífi Evrópu síðustu misseri, ekki síst vegna skuldavandamála ríkja eins og Grikklands, Portúgals og Írlands, sem hafa þegið hundruð milljarða evra í styrk. Nýjustu hagtölur frá Frakklandi og Þýskalandi hafa svo enn aukið óvissu með framhaldið, en hartnær enginn hagvöxtur varð í löndunum á öðrum fjórðungi þessa árs.

Merkel og Sarkozy hétu því að standa vörð um evruna. Meðal annarra atriða í tillögum þeirra var að koma á sameiginlegum evrópskum skatti á fjármagnsflutninga og að evruríkin myndu stjórnarskrárbinda bann við fjárlagahalla, ekki síðar en næsta sumar. Þá sömdu Frakkland og Þýskaland um að samhæfa fyrirtækjaskatta ríkjanna.

Loks má þess geta að leiðtogarnir neituðu að til stæði að gefa út evruskuldabréf og ekki kæmi til greina að efla neyðarsjóð evrusvæðisins. Sarkozy sagði sjóðinn, sem stendur í 440 milljörðum evra í dag, vera nægilega öflugan til að bregðast við þeim þrengingum sem evruríkin horfi fram á.

Fyrrnefnt efnahagsyfirvald evrusvæðisins yrði, samkvæmt hugmyndum Merkel og Sarkozys, skipað leiðtogum allra aðildarríkja myntbandalagsins, undir forystu forseta leiðtogaráðs ESB.

Óvíst er hver viðbrögð annarra evruríkja verða við tillögunum, sem fela í sér afsal á völdum ríkisstjórna í efnahagsmálum.

Tillögurnar fengu blendin viðbrögð á mörkuðum þar sem evran hækkaði í verði gegn Bandaríkjadal fyrst eftir fund Sarkozys og Merkel en gaf svo eftir seinni partinn. Merkel og Sarkozy lögðu áherslu á að enga skyndilausn væri að finna á vandanum. Frekar þyrfti að líta til pólitískra langtímalausna.

thorgils@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×