Innlent

Vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um Atlantshafsbandalagið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, er ekki á meðal flutningsmanna tillögunnar þótt flestir samflokksmanna hans séu það.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, er ekki á meðal flutningsmanna tillögunnar þótt flestir samflokksmanna hans séu það.
Allir þingmenn VG, nema Steingrímur J. Sigfússon formaður og Jón Bjarnason, vilja að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu fari fram. Samkvæmt þingsályktunartillögunni, sem þingmennirnir hafa lagt fram ásamt Birgittu Jónsdóttur og Atla Gíslasyni vilja þau að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram fyrir mitt næsta ár.

Í greinagerð með þingsályktunartillögunni, sem var lögð fram í dag, segja þau að því hafi farið fjarri að einhugur væri um þá ákvörðun Alþingis að Ísland skyldi ganga í Atlantshafsbandalagið árið 1949. „Ákvörðunin leiddi á sínum tíma til fjöldamótmæla og í kjölfarið réttarhalda sem lengi drógu dilk á eftir sér. Ísland var þá sem nú herlaus þjóð en á tímum ólgu og óvissu var byr kalda stríðsins látinn ráða för. Í kjölfarið fylgdi samningur við Bandaríkin og uppbygging herstöðvarinnar á Miðnesheiði," segir í greinargerðinni. Sú óeining sem þessar ráðstafanir sköpuðu hafi sett svo sterkan svip á þjóðmálin næstu áratugi að aldrei hafi gróið um heilt.

Þingmennirnir segja að þær áskoranir sem Ísland standi nú frammi fyrir varði hluti eins og auðlindir og umhverfi og öryggi í samgöngum og samskiptum, þættir sem allir eigi það sameiginlegt að krefjast viðbúnaðar og samstarfs á borgaralegum grunni frekar en hernaðarlegum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×