Innlent

Vill að íslenska ríkið höfði mál gegn ESA

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Fjármálaráðherra hefur lagt til við ríkisstjórnina að íslenska ríkið höfði mál gegn ESA, eftirlitsstofnun EFTA vegna sölu á byggingum til Verne, sem rekur gagnaver í Keflavík.

Forsaga málsins er sú að í síðasta mánuði komst ESA að þeirri niðurstöðu að Verne hefði hlotið ríkisaðstoð í gegnum kaupin á byggingunum á gamla varnarsvæðinu í Keflavík árið 2008. Það var mat ESA að söluvirði bygginganna væri lægra en það sem ESA telur að hafi verið markaðsvirði þeirra.

Því úrskurðaði eftirlitsstofnunin á þann veg mismuninn, um 220 milljónir króna, þyrfti ríkið að endurheimta frá Verne, sem og fasteignagjöld og gatnagerðargjöld sem Reykjanesbær hefur veitt Verne undanþágu frá að greiða.

Í tilkynningu sem fjármálaráðuneytið sendi frá sér í júlí síðastliðnum segir að við meðferð málsins hjá ESA hafi Íslensk stjórnvöld sýnt fram á með hvaða hætti byggingarnar voru seldar en það var gert í gegnum opið söluferli Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Byggingarnar voru að lokum seldar hæstbjóðanda, sem reyndist vera Verne.

Á ríkisstjórnarfundinum í morgun kynnti Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra síðan tillögu um málshöfðun fyrir EFTA- dómstólnum vegna málsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu munu kollegar hennar í ríkisstjórninni ekki hafa gert neinar athugasemdir við tillögu Oddnýjar og því má búast við að málið verði útkljáð fyrir dómstólnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×