Innlent

Vill endurskoða reglur um ráðstöfunarfé ráðherra

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Kristján Þór Júlíusson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í fjárlaganefnd Alþingis, tekur undir með formanni fjárlaganefndar með að skera niður eða afnema ráðstöfunarfé ráðherra. Margt skynsamlegra og nauðsynlegra sé hægt að gera við skattfé almennings á niðurskurðartímum. Þetta kom fram í seinnifréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld.

Frá bankahruninu hafa ráðherrar úthlutað rúmum 80 milljónum sem hluta af ráðstöfunarfé sínu. Oftar en ekki virðast þessar úthlutanir lítið sem ekkert koma málaflokkum ráðherranna við. Ráðstöfunarfé ráðherra hefur verið liður á fjárlögum til fjölda ára og ætlað að bregðast við óvæntum útgjöldum.

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist í Kastljósi fyrr í kvöld vilja minnka ráðstöfunarfé ráðherra og setja um það skýrari reglur.

Kristján Þór tekur undir með Guðbjarti. „Miðað við þær upplýsingar sem hafa verið að koma fram held ég að það sé full ástæða fyrir Alþingi að fara í gegnum þennan pakka. Ég sé enga ástæðu til þessa að einstakir ráðherrar séu að vinna með þessum hætti með skattfé almennings," sagði þingmaðurinn.




Tengdar fréttir

Ráðherrar úthluta tugum milljóna í eigin kjördæmi

Þrátt fyrir mikinn halla í ríkisrekstri úthluta einstakir ráðherrar enn til tónleikahalds og íþróttafélaga í heimabæjum og kjördæmum sínum. Frá bankahruninu hafa ráðherrar úthlutað rúmum 80 milljónum sem hluta af ráðstöfunarfé sínu. Oftar en ekki virðast þessar úthlutanir lítið sem ekkert koma málaflokkum ráðherranna við. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.

Össur styrkti ævisögu Einars Benediktssonar

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, nýtti 300 þúsund krónur af ráðstöfunarfé sínu til að styrkja ævisögugerð Einars Benediktssonar, fyrrverandi sendiherra. Guðbjartur Hannesson, flokksbróður Össurar og formaður fjárlaganefndar Alþingis, vill minnka ráðstöfunarfé ráðherra og setja um það skýrari reglur. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×