Innlent

Vill verðtrygginguna burt

Árni Páll Árnason, alþingismaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, alþingismaður Samfylkingarinnar.

Verðtrygging langtímalána er óaðskiljanlegur fylgifiskur íslensku krónunnar, að sögn Árna Páls Árnasonar þingmanns Samfylkingarinnar.

Verðtryggingin er deyfilyf að mati Árna sem vill hana burt. Þegar vel ári og verðbólga sé hófleg geri verðtryggingin stjórnvöldum kleif að losna undan gagnrýni á lausatök í efnahagsmálum. Þetta kemur fram í grein sem Árni skrifar í Morgunblaðið í dag.

Árni segir að undanfarna mánuði hafi almenningur fengið að kenna á því hversu ómöguleg verðtryggingin sé. Auk þess hafi komið í ljós a hún gangi ekki upp með mikilli verðbólgu.

,,Þess vegna er ábyrgð þeirra mikil sem forðuðust efnahagslegan stöðugleika eins og heitan eldinn á uppgangsárunum og lugu því að sjálfum sér og öðrum að íslensk króna gæti gengið sem framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar," segir Árni.

Árni segir mikilvægt að aftengja vítahring verðtryggingarinnar. Eina leiðin til að losa almenning undan henni sé aðild að Evrópusambandinu og notkun betri gjaldmiðils.

,,Því fyrr sem við náum í gegn aðild að Evrópusambandinu því fyrr getum við kvatt verðtrygginguna. Við megum einfaldlega engan tíma missa," segir Árni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×