Innlent

Vinnan á Búðarhálsi komin á fulla ferð

Smíði Búðarhálsvirkjunar er komin á fulla ferð og eru nú um tvöhundruð manns komin til starfa á virkjunarsvæðinu. Vinna er hafin við helstu verkþætti, þar á meðal stöðvarhús, stíflu og aðrennslisgöng.

Við ármót Tungnaár og Köldukvíslar, rétt neðan Hrauneyjafossvirkjunar, er skari vinnuvéla á iði. Þar er byrjað að grafa fyrir 1300 metra langri stíflu, sem á eftir að verða 25 metra há. Starfsmenn Ístaks byrja á því að hreinsa lausan jarðveg ofan af stíflustæðinu og þétta bergið þar undir með steypublöndu til að draga sedm mest úr hugsanlegum vatnsleka undir stífluna. Ofan hennar myndast sjö ferkílómetra inntakslón en frá því verður vatnið leitt um fjögurra kílómetra löng jarðgöng undir Búðarháls og að stöðvarhúsi. Gangagerðin er einnig hafin og búið að sprengja fyrstu 300 metrana.

En færum okkur nú vestur fyrir Búðarhálsinn, en þar er stöðvarhúsið að rísa við austurbakka Sultartangalóns, inni í mikilli hvelfingu sem þar er búið að grafa út og sprengja. Þetta er aðalvinnusvæðið og þar verður mesti starfsmannafjöldinn næstu tvö og hálft ár.

Ístak, sem er aðalverktakinn, hóf vinnuna í vetrarbyrjun. Páll Eggertsson, staðarstjóri Ístaks, segir að verkið hafi gengið þokkalega, þrátt fyrir harðan vetur, sem hafi valdið seinkunum, en nú séu allir verkþættir, sem áttu að hefjast í sumar, komnir í gang.

Kristinn Eiríksson, staðarverkfræðingur Landsvirkjunar, segir að hátt í 200 manns vinni nú á svæðinu, þar af 175 hjá verktakanum og 15 hjá Landsvirkjun við eftirlit og umsjón. Verkið er komið lengst í jöfunarþró og stöðvarhússgrunninum og þar er steypuvinna nú að hefjast. Byrjað verði á fullu í þessari viku að steypa, segir Kristinn, og menn brosi því breitt, enda verði næstkomandi þriðjudag um 700 rúmmetra steypa á einum sólarhring.

Páll segir að framkvæmdir verði á fullu í sumar en svo hægi á þeim næsta vetur. Þær fari síðan aftur á fullt sumarið 2012 en gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki í árslok 2013.

Áætlað er að virkjunin muni kosta fullsmíðuð um 26 milljarða króna. Hún verður hins vegar fljót að borga sig upp því áætla má að tekjur af raforkusölu hennar muni skila 2-2,5 milljörðum króna í kassann hjá Landsvirkjun á ári. Hér er því að verða til enn ein gullmyllan í safni Landsvirkjunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×