Innlent

Vinstri grænir ósammála um niðurstöðu flokksráðsfundar

Sigríður Mogensen skrifar
Þingmenn Vinstri grænna eru ekki sammála um hvað felst í niðurstöðu flokksráðsins um Evrópusambandsmálin. Ásmundur Einar Daðason segir hana sýna skýran vilja flokksmanna til að stöðva algjörlega það aðlögunarferli sem sé í gangi.

Ályktun um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið, eða að stöðva yfirstandandi aðlögunarferli eins og það er orðað, var hafnað á flokksráðsfundi Vinstri grænna í morgun, með 38 atkvæðum gegn 28. Á fundinum var hins vegar samþykkt ályktun um stjórnarsamstarfið og árangur ríkisstjórnarinnar en í henni áréttar flokksráð þá afstöðu VG að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.

Þar segir einnig: „Þar til þjóðin hefur tekið sína ákvörðun þarf að tryggja að ekki verði gerðar neinar breytingar á stjórnsýslunni eða íslenskum lögum í þeim eina tilgangi að laga íslenskt stjórnkerfi fyrirfram að reglum Evrópusambandsins. Ekki verði heldur tekið við styrkjum sem beinlínis eigi að undirbúa aðild."

Árni Þór Sigurðsson, starfandi þingflokksformaður segir niðurstöðu flokksráðs um Evrópusambandsmálin sýna að meirihluti fundarmanna vilji halda áfram á þeirri vegferð sem þjóðin sé í.

Ásmundur Einar Daðason túlkar niðurstöðuna öðruvísi, enda telur hann viðræðurnar fela í sér aðlögun. „Það liggur ljóst fyrir að báðar tillögurnar sem voru hér til umfjöllunar fela það í sér að stöðva algjörlega það aðlögunarferli sem er í gangi og ESB sjálft hefur sagt að sé grundvallarforsendan fyrir áframhaldandi viðræðum og allt fjárstreymi frá ESB. Þannig að verði þessum tillögum fylgt eftir að festu að þá er ljóst að það þarf að velta fyrir sér nýrri nálgun á málið," segir Ásmundur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×