Innlent

Vísindamenn fjölmenntu á þingpalla

Biðröð myndaðist fyrir framan Alþingishúsið í dag þegar hátt í hundrað vísinda- og fræðimenn mættu til að fylgjast með umræðum um framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar. Þeir segja að boðaður niðurskurður bitni verst á ungum vísindamönnum.

Í ályktun sem 147 vísinda- og fræðimenn sendu fjárlaganefnd Alþingis í gær er lýst yfir áhyggjum vegna niðurskurðar í fjárframlögum til vísindastarfa. Rannsóknarsjóður Rannís fær þannig ekki viðbótarfjármagn á næsta ári eins og gert var ráð fyrir í fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar. Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tók málið upp á Alþingi í dag.

„Það er að grípa um sig örvænting innan raða vísindafólks sem sér fram á minnkandi framlag í rannsóknarsjóðina næstu þrjú árin. Ungt fólk mun flýja land. Okkar öflugustu framhaldsnemar og okkar öflugustu nýdoktorar,“ sagði Svandís.

Vísindamenn fjölmenntu á þingpalla til að fylgjast með umræðunni. Þeir telja að um fjörutíu störf muni tapast vegna niðurskurðarins.

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, sagði að áætluð fjárframlög til Rannís á næsta ári væru há sé miðað við framlög síðustu ára. „Á undanförnum árum hefur framlagið hlaupið frá 815 milljónum árið 2009, 782 milljónir árið 2012 ,1.305 milljónir árið 2013 og verður 1.135 milljónir á næsta ári ef þetta frumvarp verður að lögum. Það er nú allur niðurskurðurinn,“ sagði Illugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×