Innlent

Vísir leitar að fyrsta Íslendingnum á Facebook

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Facebook kom fyrst til Íslands árið 2006.
Facebook kom fyrst til Íslands árið 2006. vísir/getty
Samfélagsvefurinn Facebook er tíu ára í dag og í tilefni af því leitar Vísir nú að fyrsta Íslendingnum sem skráði sig á síðuna.

Facebook opnaði þann 4. febrúar 2004 og til að byrja með var vefurinn aðeins aðgengilegur nemendum við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Fljótlega fengu aðrir háskólar aðgang og í dag eru notendurnir rúmlega 1,2 milljarðar um allan heim.

Geir Þórarinn Þórinsson er einn þeirra Íslendinga sem var nokkuð fljótur til þegar Facebook var stofnað. Í pósti sem Geir Þórarinn sendi Vísi kemur fram að hann hafi skráð sig á samskiptamiðilinn þann 20. september 2004. 

„Mig grunar að ég sé ekki fyrstur Íslendinga á Facebook en ég skráði mig 20. september 2004. Þá hét miðillinn reyndar The Facebook,“ segir Geir.

Gustav Sigurðsson var þó fyrri til en Geir en hann skráði sig á Facebook þann 15. apríl 2004 þegar hann var við nám í Princeton.

Vísir heldur þó leitinni áfram. Veist þú hvaða Íslendingur var fyrstur til að skrá sig á Facebook? Ert það kannski þú? Skrifaðu endilega athugasemd hér fyrir neðan eða sendu tölvupóst á ritstjorn@visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×