Innlent

Vissi ekki um kaup Reykjavíkur á landi í Vatnsmýrinni

Innanríkisráðherra vissi ekki um undirritun samkomulags um kaup Reykjavíkurborgar á landi ríkisins í Vatnsmýrinni. Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra og Dagur B. Eggertsson, staðgengill borgarstjóra, undirrituðu kaupsamninginn í gær.

Samkomulagið felur í sér að borgin kaupir 112 þúsund fermetra byggingarland í vatnsmýrinni sem verður til þegar þegar norð/austur suð/vestur flugbrautinni verður lokað - hin svokallaða litla flugbraut.

Samkomulagið er meðal annars háð samþykki innanríkisráðherra en hann hefur hingað til verið mótfallinn því að flugvöllurinn verði fluttur úr Vatnsmýrinni.

„Ég vissi að sjálfsögðu að það væru viðræður í gangi milli fjármálaráðuneytisins og borgaryfirvald um kaup eða sölu á þessu landi og það er eitthvað sem við öll höfum verið að vinna að að gæti gengið eftir því það er hluti af lausninni," segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. „En ég vissi ekki af því að menn hefðu verið búnir að setja undirskrift undir slíkan samning vegna þess að hann, eins og ég sagði áður, er skilyrtur ýmsum þáttum líka."

Ögmundur segir heppilegra að unnið sé að þessu máli í sátt við alla aðila.

„Við eigum eftir að ná samkomulagi við hlutaðeigandi aðila þannig að samkomulag borgarinnar og fjármálaráðuneytisins verður ekki virkt fyrr en allir endar hafa verið hnýttir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×