Skoðun

Vörugjöld eru ekki eðlileg gjaldtaka

Guðný Rósa Þorvarðardóttir skrifar
Félag atvinnurekenda hefur undanfarið kynnt fyrir stjórnvöldum Falda aflið sem eru tólf tillögur til aðgerða og umbóta fyrir íslenskt atvinnulíf. Við viljum að stjórnvöld hrindi þeim í framkvæmd fyrir þinglok 2014 og leggi þannig lið minni og meðalstórum fyrirtækjum sem eru 90% fyrirtækja landsins.

Tvær tillögur FA fjalla um aðflutningsgjöld ríkissjóðs og vil ég vekja athygli á þeim í tveimur pistlum, annars vegar þeim sem hér fer á eftir og fjallar um fimmtu tillögu FA um afnám vörugjalda. Í öðrum pistli verður fjallað um elleftu tillögu FA um lögfestingu fleiri gjalddaga virðisaukaskatts í tolli.

Mismunun vara í samkeppni

Ríkissjóður hefur lengi notað vörugjöld á innfluttar vörur sem tekjuöflunarleið. Í tíð fyrri ríkisstjórnar var samþykkt að fjölga vöruflokkum með þessum tollum, enda allra leiða leitað til að auka tekjur ríkissjóðs. Fljótt á litið virðist hugmyndafræðin hafa snúist um að setja toll á lúxusvörur sem fólk gæti verið án.

Vörugjöld voru því ekki sett á þær vörur sem embættismenn töldu vera nauðsynlegar neysluvörur, heldur sérvaldar vörur sem hugsanlega væru óhollar eða gætu flokkast sem óþarfar. Dæmi um þetta eru sykurvörur í flokki matvara sem bera vörugjöld og sambærilegar vörur sem innihalda ávaxtasykur án vörugjalda.

Í vörugjaldafrumskóginum bera tölvur og fylgihlutir engin vörugjöld. Hins vegar er lagt 25-30% vörugjald á hljómflutningstæki, útvörp og sjónvörp. Erfitt er að sjá af hverju þessi munur stafar enda tölvur notaðar til að horfa á sjónvarp auk þess sem hægt er að nota sjónvarp til að vafra á netinu. Þetta eru skýr dæmi þess að vörugjöld skekki samkeppnisstöðu sambærilegra vara.

Mismunun þegnanna

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum tíðina barist gegn innflutningshömlum en vörugjöldin eru klárlega hluti þeirra. Í september 2012 var viðtal við einn þingmann Sjálfstæðisflokksins, Guðlaug Þór Þórðarson, í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis. Þar sagði hann innflutningstolla á vörur fela í sér hrópandi mismunun þeirra sem eru efnaðir og þeirra sem hafa lítið milli handanna.

Í því samhengi nefndi hann að flugfarþegar sem ferðast til annarra landa geta keypt ódýran varning þar upp að ákveðinni fjárhæð og flutt hann til landsins án þess að borga af honum tolla. Þeir sem heima sitja þurfa hins vegar að greiða tolla og vörugjöld af öllu sem þeir flytja til landsins.

„Þetta er náttúrlega ótrúleg mismunun og skrítið hvað þetta er lítið í umræðunni,“ sagði Guðlaugur og taldi löngu tímabært að lækka gjöld og bæta lífskjör fólks. Aðspurður taldi hann ekki rétt að ríkið missi af tekjum ef það lækki tolla. Það eina sem tollarnir geri sé að fæla verslun burt úr landinu.

Þarna hefur þingmaðurinn rétt fyrir sér. Nú þegar flokkur þingmannsins er kominn í stjórn ætti að vera lag að gera breytingar á tollakerfinu sem myndi jafna samkeppnisstöðu innflytjenda og fela um leið í sér kjarabætur fyrir landsmenn alla. Mikill kostnaður er fólginn í því að viðhalda núverandi eftirlitskerfi og spurning hvort ríkissjóður tapi miklu við að afnema þessi gjöld þar sem eftirspurn innanlands myndi án efa aukast mikið við samkeppnishæfara verð.

Það má lesa meira um Falda aflið á atvinnurekendur.is




Skoðun

Sjá meira


×