Bíó og sjónvarp

Wachowski-systkinin búin að loka Óðinsgötu

Myndir úr tökum við Óðinsgötu í kvöld.
Myndir úr tökum við Óðinsgötu í kvöld.
Upptökur á þáttaröðinni Sense8 standa nú yfir á Íslandi en eins og Vísir hefur áður greint frá. Að sögn sjónarvotta er gríðarlega mikill viðbúnaður við Óðinsgötu eins og stendur.

Síðasti áætlaði tökudagur stendur nú yfir, en Wachowski systkinin ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, heldur hafa þau lokað Óðinsgötu á föstudagskvöldi, þegar mikið er um skemmtanaþyrsta Íslendinga í miðbæ Reykjavíkur.

Þáttaröðin er vísindaskáldsaga og hugarfóstur Lönu og Andys Wachowski 
en þau eru vel þekkt í Hollywood þar sem þau leikstýrðu og skrifuðu meðal annars Matrix-þríleikinn og Cloud Atlas og skrifuðu V for Vendetta.  

Upptökurnar hafa verið umfangsmiklar hér á landi og hefur tökuliðið, sem telur hundruði manna, verið á faraldsfæti um landið síðustu daga ásamt starfsmönnum True North. Helgina 22. og 23. ágúst var mannfjöldinn við tökur á Akranesi þar sem þeir lögðu undir sig fyrrum ellideild sjúkrahússins í bænum. 

Þá sást til tökuliðsins í Þingholtunum í Reykjavík í vikunni áður en þau fluttu sig í „Holu íslenskra fræða“ við Þjóðarbókhlöðuna. Þá hafa vegfarendur einnig orðið varir við mannaferðir í húsgrunninum við hliðina á tónleikahúsinu Hörpu og hafa aðstandendur þáttaraðarinnar verið við tökur á Hótel Sögu og Nesjavöllum á síðustu dögum.

Þá má einnig búast við því að kennileiti borgarinnar á borð við Perluna og Hallgrímskirkju verði í lykilhlutverki í þáttaröðinni.

Þrátt fyrir að óvíst sé hvaða leikarar fara með hlutverk í þáttunum sem eru teknir upp á Íslandi má teljast líklegt að þeirra á meðal séu Daryl Hannah og Naveen Andrews, en þau sáust spóka sig í miðbæ Reykjavíkur. Hannah hefur leikið í fjölmörgum þekktum myndum á ferli sínum, svo sem Blade Runner, Splash og Kill Bill. Andrews er þekktastur fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttaröðinni Lost, sem sýnd var á RÚV fyrir nokkrum árum.

Tökur á þáttaröðinni fara einnig fram í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Suður-Kóreu, Mexíkó og Keníu. Sense8 er framleidd fyrir Netflix og áætlað er að hún komi út árið 2015.



Óðinsgata er undirlögð tökuliðinu

Tengdar fréttir

Erlendar stórstjörnur mættar til Íslands

Daryl Hannah, Naveen Andrews og systkinin Andy og Lana Wachowski eru mætt til landsins. Fjórmenningarnar hafa sést spóka sig í miðbæ Reykjavíkur.

Lítið um stórar Hollywood-sprengjur

Verkefnum í tengslum við tökur erlendra kvikmyndavera hér á landi hefur fækkað þegar miðað er við árin 2012 og 2013. Pegasus, TrueNorth og Sagafilm hafa aðallega komið að gerð erlendra sjónvarpsþátta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.