Enski boltinn

Wenger gæti fengið 11 milljarða kr. til þess að kaupa leikmenn

Það hefur ekki gengið vel hjá Arsenal og Arsene Wenger að undanförnu.
Það hefur ekki gengið vel hjá Arsenal og Arsene Wenger að undanförnu. Getty Images / Nordic Photos
Það hefur ekki gengið vel hjá Arsenal og Arsene Wenger að undanförnu. Liðið er í mikilli lægð og féll úr ensku bikarkeppninni um helgina eftir 2-0 tap gegn Sunderland. Stjórn Arsenal stendur þétt við bakið á knattspyrnustjóranum Wenger og er talið að hann muni fá 55 milljónir punda til leikmannakaupa næsta sumar – sem nemur 11 milljörðum kr.

Það bendir allt til þess að Arsenal fari í gegnum þetta tímabil án þess að vinna titil sem yrði þá sjöunda tímabilið í röð.

Stjórnarfundur mun fara fram hjá Arsenal á fimmtudaginn og er búist við að stjórnin taki þá ákvörðun að veita miklu fjármagni til þess að styrkja leikmannahóp liðsins.

Arsenal tapaði 4-0 á útivelli gegn AC Milan í Meistaradeildinni s.l. miðvikudag og staðan nánast vonlaus fyrir síðari leikinn sem fram fer í London.

Samningur Wenger rennur út eftir keppnistímabilið 2014. Enskir fjölmiðlar greina frá því að eftirtaldir leikmenn séu á óskalistanum hjá Wenger; Mario Goetze, Lukas Podolski, Eden Hazard og Matias Suarez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×