Viðskipti innlent

Wessman mun áfrýja - óttast að Novator fari í þrot á meðan

Róbert Wessman og hans menn óttast að Novator fari í þrot áður en efnisleg niðurstaða fæst í málið.
Róbert Wessman og hans menn óttast að Novator fari í þrot áður en efnisleg niðurstaða fæst í málið.
„ Þetta er náttúrulega engin efnisdómur um kröfuna og verður úrskurðinum áfrýjað til Hæstaréttar,“ segir lögmaður Róberts Wessman, Árni Harðarson, um frávísunarúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í dag. Róbert höfðaði mál gegn félögum Björgólfs Thors Björgólfssonar, Novator Pharma Holding, sem er skrásett á Tortóla, og Novator Pharma í ágúst á síðasta ári.

Ástæðan var sú að hann taldi sig eiga inni 30  milljónir evra, eða um 4,6 milljarða króna, vegna árangurstengdrar þóknunar. En Róbert var forstjóri Actavis, áður Delta, í tæp tíu ár.

„Hins vegar féllst Héraðsdómur á að kröfugerðin í málinu, sem byggir að hluta til á fjárhagskennitölum (EV/EBITDA gildum) Actavis, þyrfti að vera skýrari, en hún byggði að hluta til á áætlunum sem síðan gengu eftir og voru staðfestar í ársreikningi.  Ástæða þess var að Róbert hafði á þeim tíma er stefnt var ekki aðgang að nýjasta ársreikningi Actavis en hann var síðan lagður fram í málinu,“ útskýrir Árni um ástæður þess að dómurinn féllst á kröfu félaganna.

„Ef Hæstiréttur staðfestir þennan frávísunarúrskurð þarf einfaldlega að stefna málinu aftur byggt á ársreikningnum til fá dóm fyrir kröfunni,“ segir Árni og því ljóst að málinu er hvergi lokið.

Hann bætir svo við að lokum: „Það er vont að missa þennan tíma þar sem við óttumst að Novator, félag Björgólfs sem stefnt var í málinu, fari í þrot áður en við fáum efnisdóm þar sem búið er að færa eignarhaldið á Actavis í annað félag í hans eigu.“


Tengdar fréttir

Björgólfur hafði betur: Máli Wessman vísað frá dómi

Dómari Héraðsdóms Reykjavíkur féllst á frávísunarkröfu Novator í dag í skuldamáli sem athafnamaðurinn Róbert Wessmann höfðaði gegn fyrirtækinu, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×