Enski boltinn

Zlatan skoraði bæði mörkin í fyrsta heimaleik Mourinho

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic skoraði bæði mörk Manchester United í 2-0 sigri á Southampton í fyrsta leik 2. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Þetta var fyrsti deildarleikur United undir stjórn José Mourinho á Old Trafford og Portúgalinn sá sína menn vinna nokkuð sannfærandi sigur í kvöld.

Paul Pogba, dýrasti leikmaður fótboltasögunnar, lék sinn fyrsta leik fyrir United eftir félagaskiptin frá Juventus og Frakkinn átti fínan leik á miðju heimamanna.

Zlatan kom United yfir á 36. mínútu með hörkuskalla eftir fyrirgjöf Wayne Rooeny frá hægri.

Staðan var 1-0 í hálfleik en eftir sjö mínútna leik í seinni hálfleik bætti Zlatan öðru marki við úr vítaspyrnu sem dæmd var á Jordy Clasie fyrir brot á Luke Shaw. Zlatan var öryggið uppmálað á vítapunktinum og skoraði sitt þriðja deildarmark fyrir United.

Lærisveinar Mourinho sigldu sigrinum svo í örugga höfn og fögnuðu þremur stigum. United er á toppi deildarinnar með sex stig en Southampton er með eitt stig eftir fyrstu tvær umferðirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×